Leita í fréttum mbl.is

Hvaða hagsmuna eru samtök lánþega að gæta?

Í fyrsta skiptið sem þessi ríkisstjórn sýnir einhverja viðleitni til að hjálpa þeim sem skulda orðið tugprósentum meira en nokkurn gat órað fyrir þá er að ekki bara svo að lánafyrirtækin bregðist við með ópum og óhljóðum heldur snarast sjálfskipaðir fulltrúar þessara skuldara fram og fordæma viðleitnina!

Í fyrsta lagi þá finnst mér óvarlegt að tjá sig nokkuð fyrr en frumvarpið liggur fyrir. Reynslan af umræðu undanfarna mánuði er sú að oft er nokkur munur á yfirlýsingum og hugmyndum og síðan því sem lagt er á borðið þegar allt kemur til alls. En hið jákvæða í þessu er að ríkisstjórnin virðist vera að sjá ljósið. Það er þörf á almennum aðgerðum til leiðréttingar skulda. Þessu hefur Framsóknarflokkurinn talað fyrir í rúmt ár og gott að einhver er farinn að leggja við hlustir.

En helsta hugsanavillan í málflutningi samtaka lánþega virðist vera sú að verði gengistryggðu lánin dæmd ólögleg að þá hverfi þau bara. Ef skilmálarnir verða dæmdir ólöglegir þá er jafn líklegt að upphaflega lánsfjárhæðin verður reiknuð upp með einhverjum hætti, en vextirnir verði ekki einir látnir duga. Ég ætla að taka fram að ég sé sterk rök með báðum hliðum í þessu máli og því tel ég algjörlega óvíst hvað verður. En sennilega mun aðeins allra besta mögulega niðurstaða geta tryggt lántakendum betri stöðu heldur en almenn færsla niður í 110% af markaðsvirði. Kostir slíkrar aðgerðar eru hins vegar að hún kæmi til framkvæmda strax, án óvissu um stöðu einstakra lántakenda eins og gæti orðið í kjölfar niðurstöðu í dómsmálinu fræga og myndi að auki vonandi blása lífi í markað með notaða bíla.

En það er tilgangslaust að ræða þetta mikið. Vinstri hreyfingin grænt framboð mun án efa drepa þessa viðleitni félagmálaráðherra í fæðingunni. Viðbrögð fyrirtækjanna í dag benda til þess að þau ætli sér að treysta á þetta. VG ætlar sér nefnilega að deila út félagslegu réttlæti eftir eigin forskrift. Skammta réttlætið eins og skít úr hnefa. Í hugarheimi þeirra þá eiga þeir sem tóku bílalán fyrir Land Cruiser nefnilega skilið að eiga í skuldavanda og vandi þeirra og fjölskyldna þeirra er bara þeim sjálfum að kenna. En fólki sem tók lán fyrir Yaris á að bjarga.

Þeir vilja dæma eins og Guð á himnum um hvort líf mannanna verðskuldi náð. Og þess vegna mun þessi flokkur aldrei styðja við almenna leiðréttingu. Þeir eru of uppfullir af fordæmingu til þess.


mbl.is Saka Árna Pál um ódýrt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í þessu tilviki er fyrst og fremst verið að hugsa um hagsmuni skattgreiðenda, en þeir kunna að verða skaðabótaskyldir ef Árni Páll Háll sem Áll þvingar fram afskriftir sem hrekja fjármagnsleigurnar í gjaldþrot. Eða má annars bjóða þér að niðurgeiða bílalánið mitt? Ef svo er þá getum við allt eins gengið frá því milliliðalaust án aðkomu féló.

Nei, þeir sem eiga að bera skaðann eru þeir sem hafa stundað og fjármagnað þessa skipulögðu glæpastarfsemi, sem eru aðallega bankar bæði innlendir og erlendir. Og víst hverfur vandamálið ef lánin verða dæmd ólögleg. Ef einhver sendir handrukkara á þig fyrir tilhæfulausri kröfu og lögreglan kemst í málið og handtekur ofbeldismennina, þarftu þá að halda áfram að borga? Nei, heldur betur ekki.

Ég þekki ekki til hjá hinum, en eitt þessara fyrirtækja, SP-fjármögnun virðist ekki hafa starfsleyfi fyrir grunnþáttum í reglulegri starfsemi sinni, sem er fjármögnuð af Landsbankanum. Glæpirnir þar hafa skilað fleiri milljörðum í hagnað á undanförnum árum, en ágóða af skipulagðri glæpastarfsemi á að gera upptækan og leggja í ríkissjóð. Ég er orðin hjartanlega sammála beitingu hryðjuverkalaga á þessa svikamyllu og tel að það haf verið hárrétt ákvörðun, þó ég muni aldrei fyrirgefa Bretunum að hafa sett íslenska ríkið og gullforðann undir sama hatt.

Guðmundur Ásgeirsson, 15.3.2010 kl. 09:19

2 identicon

Guðmundur, ég held að það sem hann á við er að gengistryggð lán hverfi ekki þó þau séu dæmd ólögmæt, heldur að útreikningur lánanna verði breytt.

Einhver þarf að klára að borga fyrir þessa bíla, ef að lánsfyrirtækin verða gjaldþrota, sem myndi líklega gerast ef að þessi lán bara "hverfi", hver á þá að borga? Endar það þá ekki bara aftur á skattgreiðendum?

Einar Ólafsson (IP-tala skráð) 15.3.2010 kl. 10:00

3 Smámynd: Sævar Einarsson

Þetta átti að vera búið að gera fyrir 1 ári síðan. Mikið af fólki er nú þegar komið á hausinn út af þessu og margir hjónaskilnaðir og særindi hafa átt sér stað og  splundrað upp heilu fjölskyldum þegar lánveitendur hafa gengið að veði skyldfólks.

Sævar Einarsson, 15.3.2010 kl. 10:20

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sævarinn: láttu mig vita það! 

Einar Ólafsson:

Þegar ég endurnýjaði fjölskyldubílinn árið 2007, þá gerði ég kaupleigusamning við SP Fjármögnun fyrir milligöngu Toyota umboðsins. Það sem þá gerðist var að SP keypti bílinn af umboðinu og er skráður eigandi í bifreiðaskrá, þetta hef ég beint eftir lögfræðingi SP sem heldur því meira að segja fram að það skipti máli fyrir réttarstöðu SP jafnvel þó mér hafi verið talin trú um annað á sínum tíma. SP leigir mér svo bílinn gegn mánaðlegri greiðslu og skráir mig sem umráðamann ökutækisins, þannig að reikningar fyrir bifreiðagjöldum berast til mín og ég er ábyrgur fyrir tryggingum á ökutækið þ.á.m. kaskótryggingu sem er eitt af skilyrðum kaupleigusamningsins.

Að ofansögðu má líta svo á að ég sé að leigja bílinn af núverandi lögmætum eiganda, en hvort sá eigandi skuldar ennþá einhverjar eftirstöðvar af kaupverðinu kemur mér í rauninni ekki við. Á leigusamningnum stendur skýrum stöfum að hann sé í krónum en gengistryggður miðað við tiltekna myntkörfu. Ef þetta fyrirkomulag verður dæmt ólögmætt, þá þarf líklega að endurreikna samninginn frá upphafi miðað við löglegar forsendur og skuldajafna mismuninn, sem miðast þá við sömu vexti sem þarf svo að skera úr um hvort eigi að vera með eða án verðtryggingar. Ef slík endurákvörðun leiðir til gjaldþrots SP Fjármögnunar þá á upphaflegur seljandi, Toyota umboðið, líklega kröfu í þrotabúið fyrir því sem ógreitt er af upphaflegu kaupverði. Það stendur því ekki upp á mig að borga afganginn af bílnum svo lengi sem ég stend við leigusamninginn.

Ef þú skilur hvernig bankakerfið virkar þá veistu væntanlega að þegar banki lánar peninga þá er hann ekki að afhenda þér neina seðla úr peningageymslunni eins og þegar þú lánar vini þínum fyrir kók og prins póló, ef svo væri þá þyrftu bílfarmar af peningaseðlum og mynt að fara milli útibúa vegna daglegra viðskipta á borð við íbúðakaup o.fl. Það sem gerist í raun er að bankinn býr einfaldlega til peningana í bókhaldi sínu. Þetta eru bara tölur á blaði sem voru aldrei til staðar sem alvöru peningar, heldur verða að alvöru peningum seinna eftir því sem lánið innheimtist smám saman, en undirliggjandi raunverðmæti felst í þeim veðum eða lánstrausti sem liggja til grundvallar láninu. Þess vegna þarf ekki að "skila" neinum peningum þó að lánið sé afskrifað, eini kostnaðurinn sem því fylgir hér og nú er strokleður eða rafrænt ígildi þess. Bankalán eru ekki verðmæti í núinu heldur ávísun á verðmæti í framtíðinni, haldi menn annað er það ranghugmynd. Þessi lýsing á því hvernig peningar verða til í kerfinu er auðvitað talsverð einföldun, því bankinn þarf vissulega að eiga til peninga á móti láninu sem nemur bindiskyldu og lágmarks eigin fé, en þeir peningar eru aldrei afhentir viðskiptavinum heldur geymdir í fjárhirslunni. Lágmarks eigið fé banka er 8-10% skv. alþjóðlegum viðmiðum, en bindiskylda á Íslandi var nýlega lækkuð og er ekki nema 3-5% minnir mig á meðan t.d. í Kína er nýlega búið að hækka hana í 14-15%. Því lægri sem þessi hlutföll eru því meira geta bankarnir framleitt af peningum með útlánum, sem útskýrir e.t.v. hveru grimmt þeir hafa lánað í allskyns vitleysu ekki síst til eigenda sinna sem sátu þannig í rauninni á peningaprentvél. Offramleiðsla á peningum umfram undirliggjandi verðmæti leiðir alltaf á endanum til aukinnar verðbólgu, það er bara markaðslögmálið um framboð og eftirspurn sem ræður því. Þetta er einmitt það sem gerist þegar menn eru að lána óhóflega út á vafasöm veð eða ofmat á lánstrausti (viðskiptavild er ágætis dæmi), þá drukknar kerfið í "fölsuðu" fjármagni. Áhrifin eru þau sömu og af stórfelldri peningafölsun, en Þjóðverjar beittu því herbragði einmitt í seinni heimsstyrjöldinni til þess að fella breska pundið. Við þurfum alls ekki að óttast réttmætar afskriftir því þær leiða til verðbólguhjöðnunar þannig að hver króna sem þú átt eftir í vasanum verður verðmætari en hún var áður, eftir að búið er taka fölsuðu peningana úr umferð. Hugsanlegur fórnarkostnaður vegna skammtímaáhrifa af slíkum inngripum er hverfandi miðað við jákvæð langtímaáhrif á gjaldmiðilinn og hagkerfið.

Það er nefninlega víst hægt að láta skuldir og peninga "hverfa", alveg eins og hægt er að "búa þá til". Í því felst einmitt útgáfa og umhirða gjaldmiðils sem er t.d. grundvallarviðfangsefni seðlabanka. Því miður fáum við aldrei að vita í gegnum skólakerfið hvernig þetta virkar (afhverju ætli það sé?) þannig að flestir alast upp án þess að skilja eðli fjármagns og halda að hugtakið peningar takmarkist eingöngu við seðla og mynt, á meðan raunveruleikinn er allt annar. Þeir fáu sem átta sig á þessu skilja hinsvegar hversu mikil völd fylgja því að eiga banka, sérstaklega einkarekinn banka sem þarf ekki að hlýða boðvaldi ríkisins og getur því haft talsverð áhrif á örlög og þróun gjaldmiðilsins, sjálfum sér í hag. Afhverju halda menn annars að tvær stærstu valdablokkir á Íslandi hafi sammælst á sínum tíma um að skipta á milli sín bönkunum þegar þeir voru einkavæddir á sínum tíma? Það var a.m.k. ekki vegna þess að bankastarfsemi væri eitthvað sérstaklega spennandi rekstur, sem hann er alls ekki, heldur snýst þetta um völdin til þess að hirða verðmæti af almenningi.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.3.2010 kl. 21:54

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Afsakið langlokuna, ef síðuhöfundur vill henda þessu út þá er það í lagi mín vegna, ég er búinn að taka afrit til varðveislu og eigin nota. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 17.3.2010 kl. 01:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband