Leita í fréttum mbl.is

Bæjarmálablaður II

Svo sem fram kom í gær ætla ég í tilefni kosninganna að skrifa daglega hugleiðingu um bæjarmál fram til kosninga. Ég vil aftur taka fram að athugasemdakerfi við færslurnar er opið með tveimur fyrirvörum. Í fyrsta lagi ætlast ég til að menn séu sæmilega vandir að virðingu sinni óháð því hvort menn skrifa undir nafni eður ei. Í annan stað hef ég mótað mér þá stefnu að skrifa ekki sjálfur athugasemdir við eigin færslur. Ef athugasemdir kalla á viðbrögð er því ekki við því að búast að ég svari strax heldur þá í annarri bloggfærslu síðar.

-------------------------

Ferðaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugrein sveitarfélagsins og þar eru sömuleiðis miklir vaxtarmöguleikar. Vatnajökulsþjóðgarður mun t.a.m. vekja mikla athygli erlendra ferðamanna og það er mikill óplægður akur í hópi innlendra ferðamanna. Þess vegna vill framsóknarflokkurinn vinna með ferðaþjónustuaðilum að átaki þar sem Fljótsdalshérað er markaðssett sem ómissandi áfangastaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Slíkt átak þarf að vera víðtækt en mig langar að nefna nokkur atriði. Margir ferðamenn, bæði frá Evrópu og Ameríku sækjast eftir því að ferðast á eigin vegum og nota sér til stuðnings ferðahandbækur eins og Lonely planet bækurnar. Það er Héraðinu nauðsynlegt að þeir sem skrifa þessar bækur hafi jákvæða reynslu af svæðinu og það er hægt að leitast við að tryggja það með því að bjóða þessum höfundum hingað og sýna þeim allt það besta sem við höfum upp á að bjóða.

Sveitarfélög í kringum okkur hafa sum hver lagt nokkra vinnu í að markaðssetja sig sem áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Við getum byggt á þeirri vinnu í samstarfi við þessi sveitarfélög. Til að ná árangri í þessu þarf að sækja ferðakaupstefnur erlendis, kynna sveitarfélagið þar og sýna þolinmæði, því ekki er við því að búast að árangur fari að sjást af þeirri vinnu fyrr en að einhverjum árum liðnum.

Það er mikilvægt að huga að uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn. Það þarf að tryggja að tjaldsvæðið sé með þeim bestu á landinu og að miðbærinn þar sem ferðamenn sækja þjónustu sé aðlaðandi og bjóði upp á þá þjónustu sem ferðamenn sækjast eftir. Byggja verður á ímynd sveitarfélagsins sem grænt og náttúruvænt og ásýnd bæjarins má ekki vera í hróplegri mótsögn við þessa ímynd.

Það eru ekki síst tækifæri í markaðssetningu á sveitarfélaginu sem áfangastað fyrir náttúruunnendur enda möguleikar til útvistar nánast óendanlegir. Gildir þar einu hvort um er að ræða göngufólk, hestafólk, ferðamenn á vélknúnum farartækjum eða veiðifólk. Stórt skref í að auka þessa möguleika enn frekar væri ef ferðaþjónustuaðilum gæfist tækifæri til að kaupa á uppboðsmarkaði nokkur veiðileyfi á hreindýr og gætu þá selt þau sem hluta af pakkaferðum fyrir veiðimenn. Það gildir hið sama um hreindýraveiðileyfi og aðrar auðlindir. Þeim er best komið með því að heimamenn ráði sem mestu um nýtingu þeirra.

Margt fleira mætti nefna en allt eru þetta verkefni þar sem sveitarfélagið getur lagt sitt á vogarskálarnar í góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Þetta samstarf, sem og samstarf ferðaþjónustuaðila innbyrðis er lykillinn að uppbyggingu á þessu sviði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahérna, enn er ég sammála Þetta fer að verða vandræðalegt bara.

EN ef við viljum þjónusta þessa ferðamenn svo boðlegt sé þá verðum við líka að sjá til þess að allt okkar lykilfólk, unga fólkið sem hér er að koma sér fyrir eins og þú og þín kona já og nýfædd dóttir( til hamingju)  séu sjálfráð um það hvenær farið er í sumarfrí og þar komum við að sumarlokun leikskóla sem er eitt það versta sem hér hefur verið komið á. Ekki bara að það er að koma ílla niður á vinnandi barnafólki heldur einnig   samstarfsfólki þeira líka,  því þessi lokun er búin að taka það vald að fólki og oft á tíðum einnig að koma í veg fyrir að foreldrar geti eitt sumarfríi sínu með börnum sínum, því það er bara ekki þannig að allir fái frí þegar leikskóla er skellt í lás. Því hlakka ég til sem og margir aðrir að fá svör við spurninga lista þeim er ég sendi ykkur. Héraðslistinn er búin að svara.

(IP-tala skráð) 11.5.2010 kl. 23:34

2 identicon

Sæl Silla :)

Mig langar aðeins að svara í sambandi við sumarlokun leikskólanna.

Ég sit í foreldraráði leikskólans Hádegishöfða og þar á undan í Foreldrafélaginu. Á vorin hefur þessi umræða um sumarlokun leikskólanna komið upp og eðlilega eru foreldrar misánægðir með þessar lokanir. Á þeim fundum sem ég hef setið með foreldrum hefur þó meirihlutinn ekki verið mótfallin þessum lokunum. Allir eru jú sammála um að börnin þurfi fjögurra vikna samfellt sumarleyfi. Var tekin upp sú regla að rúlla sumarfríum á leikskólunum, þannig það er ekki lokað á sama tíma í Fellabæ og í skólunum fyrir austan fljót. Foreldrar hafa því möguleika á að vista barnið á Hádegishöfða (eða öfugt) í þessar tvær vikur sem lokunin skarast. Þannig að foreldrum eru ekki allar bjargir bannaðar.

Eftir mikla umhugsun þá er ég sjálf á því að mánaðarlöng rúllandi lokun sé best fyrir barnið sjálft. Það liggur fyrir eftir kannanir sem hafa verið gerðar að mjög fá börn væru í leikskólanum þó þeir væru opnir. Það er mikill kostnaður sem fylgir því að hafa stofnunina opna fyrir svo fá börn. Manna þyrfti sumaropnun með afleysingarfólki, þar sem starfsfólkið þarf líka sumarfrí og ímynda ég mér að það yrði mikil röskun fyrir börnin að kynnast nýjum starfsmönnum allt sumarið og jafnframt yrði allt skipulagt starf í lágmarki og því hætt við að leikskólinn yrði hálfgerður "geymslustaður" á meðan sumarfríin kláruðust. 

Í fyrra var mitt barn í fríi frá miðjum júní fram í miðjan júlí og gat ég því sagt vinnuveitanda mínum með góðum fyrirvara að í ár yrði lokað allan júlímánuð. Ég held í raun að ef að ég gæti ekki tekið mér sumarfrí þegar skólinn lokaði myndi ég frekar kjósa að ráða mér barnapíu sem gæti verið með barnið hér heima frekar en að setja það í hálfmannaðan leikskóla, bæði af starfsfólki og börnum. Eða, sem er ekki verri kostur að leyfa því að kynnast öðrum skóla í sveitarfélaginu á meðan lokuninni stæði.

En þetta var bara svona smá innlegg í umræðuna :)

Kveðja Sigrún Hauksdóttir

Sigrún Hauksdóttir (IP-tala skráð) 12.5.2010 kl. 23:57

3 identicon

Í fyrsta lagi Sigrún mín þá er engin að tala um að barnið fái ekki sitt 4 vikna sumarfrí,  því þarf ekki að hnika. Í öðrulagi  er það ekki rétt að manna þyrfti störfin með afleysinga fólki því leikskóla starfsmenn þurfa ekki frekar en aðrir að taka allir  sitt frí sitt á sama tíma. 

Þau rök þín/ykkar að það sé slæmt fyrir börnin að fá sumarfólk inn því þau þekkja ekki fólkið gildir alveg eins um fyrirkomulagið sem þú ert að mæla bót  því það er engin trygging að manneskja af deild barnsin verði starfandi þá.  þannig að þau rök eru komin hringinn. 

Þú bendir réttilega á að það eru ekki svo mörg börnin hlutfallslega sem þurfa að vera þarna inni  á þessum tíma sem segir mér líka að ef stjórnendur væru starfi sínu vaxnir þá er ekkert mál að skipuleggja sumarfrí starfsmanna með tillti til þess að ekki þurfi að ráða inn auka starfsmenn, þetta snýst algerlega um skipulagshæfileika  og ekkert annað.

Ég veit að það er barist hart gegn opnun aftur af hálfu leikskólakennara því auðvitað vilja allir frí á besta tíma sumarsins en þjónustan á að snúast  um þá sem nota hana ekki öfugt. Svo ert þú sjálf í þannig stöðu að þinn vinnustaður lokar sem er einsdæmi hér mér vitanlega  og því snertir þetta þig ekki, en settu þig í spor stúlku sem núna nú þegar er farin í frí vegna þessarar lokunar hún jú tekur barnið út en en pabbinn verður að vinna svo hann geti tekið frí þegar leikskólinn skellir í lás. Þessi lokun er nú þegar og er alltaf hvert og eitt einasta ár að splundra fjölskyldum og ég er alveg handviss að svo eiga hlutirnir ekki að ganga fyrir sig svo ekki sé talað um að hér er predikiað að eigi að vera fjölskylduvænt samfélag.

Svo má ekki gelyma þeim grundvallar mannréttindum fólks að ráða því sjálft hvenær það tekur sitt sumarfrí  í samráði við sinn vinnuveitanda og samstarfsfólk, burt séð frá því hvort það á börn eður ei. Nú er staðan svo á mörgum vinnustöðum að barnlaust fólk er skikkað í frí ýmist að vori eða hausti svo barnafólkið geti farið þegar leikskólar loka, á ég að trúa því að þér / ykkur finnst það bara sjálfsagt og eðlilegt????

Ég hef mörg fleiri rök krúttið mitt en ég nenni ekki að skrifa meira svo komdu bara í kaffi fljótlega

(IP-tala skráð) 13.5.2010 kl. 10:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.