Leita í fréttum mbl.is

Sögulegir tímar

Smári Geirsson er reynslubolti í pólitík. Í erindi sem hann hélt á landsþingi Sambands íslenskrar sveitarfélaga komst hann einhvern vegin þannig að orði að það væri meira gaman að lesa um sögulega tíma en að upplifa þá. Þessu er ég býsna sammála enda verður maður hálfþunglyndur af því að hugsa um stöðu mála í þjóðfélaginu í dag, ekki síst þann anda sem er ríkjandi í stjórn- og þjóðmálum.

Á ný er komin upp sú staða að þúsundir flykkjast á Austurvöll og mótmæla. Það sem er undarlegast við viðbrögðin við þessu er að menn keppast við að greina það hvers konar fólk var og er að mótmæla. Reyna að greina á milli þess hvenær venjulegt fólk er að mótmæla og þá væntanlega hvenær fólkið sem mótmælir er óvenjulegt!

Þetta er ekki flókið í mínum huga. Þegar mótmælendafjöldinn er farinn að mælast í þúsundum þá er bróðurparturinn klárlega venjulegt fólk. Það var það vorið 2009 og það er það einnig nú. Samsetning hópanna er kannski eilítið önnur sem skýrist að einhverju leyti að því að þú ert frekar tilbúinn að rísa upp og mótmæla ríkisstjórn sem þú kaust ekki. En það er enginn reginmunur á þessum tvennum mótmælum. Aðgerðaleysi er fordæmt og þessi krafa um aðgerðir beinist að öllum stjórnmálaflokkum.

Í bæði þessi skipti hafa öfgamenn sett svip sinn á mótmælin. Núverandi aðstæður eru kjöraðstæður öfgamanna og kvenna til að koma málstað sínum á framfæri. Hvað það varðar geri ég ekki greinarmun á anarkistum, byltingarsinnuðum sósíalistum/kommúnistum eða þá hægriöfgamönnum og nýnasistum. (Auðvitað er einhver munur á boðskap þessara hreyfinga, en þær eiga það sameiginlegt að eiga auðveldara með að koma fram í dagsljósið á tímum sem þessum.) Eini munurinn er að heldur meira ber á hægriöfgamönnum þegar verið er að mótmæla vinstristjórn og svo vinstriöfgamönnum þegar mótmælin beinast gegn hægristjórn.

Þess vegna gleðst ég yfir því að í hópi mótmælenda er fólk sem að bregst við til að kæfa niður þessa öfgamenn. Ég gladdist þegar fólkið myndaði varnarmúr framan við lögregluna 2009 og ég gleðst einnig yfir því að fána nasista hafi verið kastað á bál nú. Öfgar munu aldrei leysa neinn vanda og ég vona að okkur Íslendingum lánist að gera ekki vont ástand verra með því að veita hættulegum og andlýðræðislegum öflum brautargengi.

En mótmælin núna eru ákall til stjórnmálamana um að grípa til aðgerða, og það strax. Forsætisráðherra hefur boðað að núna eigi að kalla stjórnarandstöðu til fundar og ræða samstöðu um lykilmál og jafnvel hefur verið hvíslað um þjóðstjórn. Nú reynir á pólitíska leiðtoga okkar. Þór Saari virðist þegar stefna í að falla á prófinu með því að mæta að borðinu þver og ekki reiðubúinn að hlusta. Oddvitar ríkisstjórnarinnar eiga langt í land með að ná breiðri samstöðu og þurfa sannarlega að brjóta odd af oflæti sínu til að það megi verði. Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þurfa að sýna ábyrgð og ekki gleyma sér í innantómum stjórnarandstöðufrösum.

Mótmælin virðast hafa vakið ríkisstjórnina og vonandi stjórnarandstöðuna líka. Ég verð að vona að þetta fólk leggi tímabundna hagsmuni og persónulega misklíð til hliðar og sé tilbúið að fórna einhverju til að ná samstöðu þjóðinni til heilla. Ég vildi bara óska að ég væri bjartsýnni en ég er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein og greining hjá þér og ég get tekið undir þetta allt saman.

Tjörvi Hrafnkelsson (IP-tala skráð) 6.10.2010 kl. 09:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.