Leita í fréttum mbl.is

Vegna niðurskurðar í heilbrigðismálum

Ég hef staðið sjálfan mig að því undanfarna daga að skrifa hér og hvar á netið langhunda um niðurksurðartillögurnar í heilbrigðismálum. Þar sem ég er ekki of duglegur að eðlisfari er ég að hugsa um að endurnýta þessi skrif og setja hér inn. Það er þó sá galli á gjöf Njarðar að sumt er náttúrulega beinlínis miðað að málflutningi annarra sem ég hef verið að skattyrðast við og því kannski ekki alltaf samhengi að lesa mín skrif ein og sér. En ég læt vaða og læt fylgja með hlekki á umræðurnar. Þar kom margt gott fram, bæði hjá þeim sem mér eru sammála og ósammála.

Athugasemdir við tengil á facebook-síðu Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns ráðherra:

"Það var nú ekki mikil skynsemi í þessu innleggi ráðherra. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað."

"Hvenær var gerð úttekt á þessari þörf [fyrir sjúkrarúm á landsbyggðinni]? Er það sem sagt niðurstaða nákvæmrar yfirferðar að Austurland hafi ekki þörf fyrir nema 50% þeirra sjúkrarúma sem hér eru nú? Hvar eiga aldraðir að leggjast inn á sjúkrahús þegar þeir þurfa aukna þjónustu tímabundið? Hvar eiga íbúar landsbyggðarinnar að jafna sig eftir aðgerðir í hátæknisjúkrahúsum þessa lands? Hvar eigum við að fá að deyja?

Og það að ætla að laga misskiptingu í þjónustu sem íbúar á Hólmavík eða á Snæfellsnesi búa við með því að auka á misskiptinguna gagnvart öðrum er rökleysa. Með sömu rökum ættum við auðvitað bara að loka öllu sjúkrahúsum. Leggja niður alla framhaldsskóla á landsbyggðinni og sennilega alla grunn- og leikskóla líka.

Og einu sinni vissi Samfylkingin líka (a.m.k. skömmu fyrir kosningar) að það felst ákveðið réttlæti í að dreifa opinberum störfum um landið. Einu sinni var talað um störf án staðsetningar. Þetta er víst líka atvinnumál. Hvernig yrði því tekið ef að það ætti að loka 6-700 manna vinnustað í Reykjavík (OR sem dæmi) og flytja öll störfin til Egilsstaða?

Það vantar ekki skynsemi í þessa umræðu. Það vantar skynsemi í þessar tillögur."

"Já við verðum seint sammála um þetta. Ég er sannfærður um að niðurstaðan af þessu verður dýrara kerfi en við búum við í dag og mun verri þjónusta. Og ég gæti skilið það þegar talað er um að markmiðið sé að færa sjúkrahúsþjónustu á færri staði en efla í staðinn heilsugæsluna, ef þess sæi einhver merki að það ætti að efla heilsugæsluna hér á svæðinu í staðinn. En þar er bara ennþá meiri niðurskurður. Það leiðir svo aftur til þess að senda þarf fleiri suður eða norður með auknum kostnaði. Ég held við verðum aldrei sammála um að það sé skynsemi í þessu."

Athugasemd við bloggfærslu Marðar Árnasonar alþingismanns:

"Það er merkilegt að lesa það, Mörður Árnason, að þú talar í aðra röndina um að það verði að kveða niður deilur milli landsbyggðar og höfuðborgar en á hinn bóginn tekur þú þér stöðu, kyrfilega sem þingmaður Reykvíkinga og elur á deilunum. Setningar eins og „Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á hinsvegar marga grátkonur..“ og „Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu…“ eru ekki innlegg í yfirvegaða umræðu um málið. Skoðaðu aðeins eigin málflutning áður en þú dæmir aðra!

Sú aðstaða sem nú er komin upp er besta réttlæting á kjördæmakerfinu sem ég hef séð á undanförnum 10-15 árum. Í þessu kerfi kemur berlega í ljós skilnings- og virðingarleysi ráðuneytanna á stöðunni úti á landi. Þess vegna er svo bráðnauðsynlegt að svæði á landsbyggðinni eigi fulltrúa innan löggjafarvaldsins. Það þarf að vernda hinn smáa fyrir ofríki hins stóra. Einhvern tíma hefðu jafnaðarmenn skrifað upp á þá hugmyndafræði.

Ég skyldi vera tilbúinn að kaupa þá hugmyndafræði að það ætti að minnka sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni og efla í staðinn heilsugæsluna ef a) Það lægi að baki þessari hugmyndafræði einhver raunveruleg athugun á eðli og notkun á sjúkrþjónustu á landsbyggðinni og b) ef þess sæi einhvern stað að það sé verið að efla heilsugæsluna á þessum svæðum, en svo er alls ekki. Öll viðbót sem ég fæ séð í heilsugæslu rennur til höfuðborgarinnar.

Þessar tillögur eru ekki annað en „shock doctrine“, eins og mér sýnist þú reyndar viðurkenna. Það er verið að nota efnahagsástandið til að réttlæta pólitíska hugmyndafræði sem felst í að fækka opinberum störfum og minnka þjónustu á landsbyggðinni. Hvert er réttlætið í því? Ef þessar breytingar á að gera þá verður að gera það að undangenginni umræðu og athugunum. Ekki bara eftir geðþótta framkvæmdavaldsins.

Og heróp Kristjáns Þórs Júlíussonar, eins hallærislegt og það kann nú að hafa verið sem slíkt, snerist í raun ekki um að rústa fjárlögunum. Það snýst um að rústa þessari pólitísku hugmyndafræði sem Samfylkingin er að boða. Og það er ósköp skiljanlegt að menn hafi klappað fyrir því."

Að síðustu má svo kannski grípa niður í umræðu á facebook-síðu minni hér:

"[F]innst merkilegt að RÚV taki við fráttapöntunum frá heilbrigðisráðherra. Hvað kemur vegalengdin frá Hólmavík því við að það er verið að slátra sjúkrarýmum á Egilsstöðum? Er þetta jafnaðarmennskan í hnotskurn? Á að jafna niður á við þangað til að við erum öll komin neðan jarðar? Það er enginn læknir á Borgarfirði. Á þá ekki bara að segja upp öllum læknum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðuna??"

"Já en þú ert að tala um niðurskurð. Er það alveg eðlilegt að skera 85% niður á landsbyggðinni. Ég er ekkert að tala um 50-50 skiptingu, heldur að byrðin af niðurskurðinum verði jafnari. Fyrir svo utan að það er verið að fækka ódýrum sjúkrarúmum úti á landi og beina þjónustunni inn á dýrari sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Er það skynsamlegur rekstur?"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband