Leita í fréttum mbl.is

Mjög athyglisverð niðurstaða

Þessi frávísun er mjög merkileg. Eftir að hafa rennt yfir niðurstöðukaflann sýnist mér að Istorrent hafi verið með unnið mál í höndunum.

Í niðurstöðunni er í löngu máli farið yfir reglur laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu. Hraðsoðin yfirferð mín yfir þær reglur sem þar er að finna, með hliðsjón af því sem segir í dómnum, segir mér að það sem gert var á torrent.is sé miðlun gagna og á 12. gr. laganna kemur fram að þjónustuveitandi beri ekki ábyrgð vegna slíkrar miðlunar nema í undantekningartilfellum. Mér sýnist í fljótu bragði ekki að starfsemi Istorrent geti fallið undir þessar undantekningar. Sem sagt unnið mál, eða hvað?

Dómurinn tekur hins vegar ekki endanlega afstöðu heldur vísar málinu frá vegna vanreifunar. Lögmaður Istorrent vísaði nefnilega ekki til laga 30/2002 nema í framhjáhlaupi við munnlegan flutning málsins og gerði ekki neina sérstaka grein fyrir því af hverju sýkna ætti stefnda á grundvelli þeirra laga. Dómstólar eiga ekki að grafa upp lögfræðilegar röksemdir fyrir aðila, heldur ber þeim að koma sínum sjónarmiðum að sjálfir.

Þess vegna sitjum við uppi með það í þessu máli að dómurinn segir nánast berum orðum ,,Við hefðum sýknað ef þú hefðir bara rökstutt mál þitt rétt." En þótt stefndu hafi ekki gert það, þá er ljóst að dómurinn taldi svo nauðsynlegt að taka lög nr. 30/2002 með í reikninginn í málinu að óhjákvæmilegt var að vísa málinu frá þar sem hvorugur aðilinn gerði það. Málið taldist því vanreifað.

Ég segi hér að ofan að mér sýnist í fljótu bragði að Istorrent hafi verið með unnið mál í höndunum. En hafa ber í huga að það er ekki ómögulegt að dómstóll geti seinna komist að þeirri niðurstöðu að einhver af undantekningunum í 12. gr. laga nr. 30/2002 eigi við og að því beri þjónustuveitandinn ábyrgð á miðlun efnis í tilfelli sem þessu. Mér finnst það samt ólíklegri niðurstaða en hitt.


mbl.is Máli gegn Istorrent vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En geta stefnendur áfrýjað þessari frávísun eða er hún endanleg?

Birdie (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 19:57

2 identicon

Svavar Lúthers, IsTorrent maður, skrifar um framvindu málsins á torrent.is

Mér finnst ég skynja á honum að SMÁÍS snúi aftur.

En þetta er bara lögbannskrafan - höfundarréttar- og skaðabótarmál eru eftir - ekki satt?

Og ekki stafur um málið eftir frávísunina á smais.is

Zunderman (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 21:36

3 Smámynd: Óli Þór Atlason

Mér finnst stórmerkilegt að lögmaður SMÁÍS skuli ekki hafa vísað til þessara laga í málflutningi sínum.  Ekki fagmannleg vinnubrögð hér á ferðinni.

Óli Þór Atlason, 27.3.2008 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.