Leita í fréttum mbl.is

Möguleikar Íslands sem fjármálamiðstöðvar

Nei ég er ekki að grínast. En ég skal játa að ég er enginn sérfræðingur og hef ekki hugsað þetta mjög djúpt.

Ég var alltaf hrifinn af hugmyndinni um Ísland sem fjármálamiðstöð. Það var vitaskuld fyrir bankahrun og helstu arkitektar og stuðningsmenn hugmyndarinnar orðnir "persona non grata" í almennri umræðu. En ég fer ekkert ofan af því að fjármálafyrirtækin sköpuðu mörg vel launuð störf fyrir ungt og vel menntað fólk. Mér leist alltaf vel á að fá erlend fjármálafyrirtæki hingað til lands. Það hefði kannski þroskað okkar eigin fjármálageira aðeins.

En af hverju er ég að rifja þetta upp í miðju fjármálahruni þar sem að orðið banki er nánast orðið að blótsyrði? Ég er að velta fyrir mér hvort við eigum ennþá möguleika á að verða fjármálamiðstöð.

Í dag er Ísland þekkt sem landið sem fór á hausinn vegna bankakerfisins. Þegar uppbyggingin hefst á ný, þá er ég ekki frá þvi að við ættum möguleika á að markaðssetja okkur sem landið sem lærði af mistökunum. "Heiðarlegasti fjármálamarkaður í heimi", eitthvað í þessum dúr.

Það er vel þekkt að mörg lönd reyna að markaðssetja sérstöðu sína. Við höfum til dæmis reynt að laða til okkar fyrirtæki, álver og netþjónabú, með því að selja þeim þá hugmynd að það hafi jákvæð áhrif á ímynd þeirra að nota vistvæna orku.

Orðspor helstu fjármálamiðstöðva heimsins er svert í dag. Sviss hefur alltaf verið áberandi sem bankaland, en þarlendir bankar hafa t.d. aldrei losnað alveg við neikvæðan blæ eftir að hafa tekið við fjármunum sem stolið var af gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Eins þykir sjálfsagt ekki fínt í dag að hafa mikil umsvif á Cayman-eyjum o.s.frv..

Ef við byggjum upp gegnsæjan markað með stífu en einföldu regluverki þá getum við kannski gert það að gæðastimpli að vera með fjármagnsumsvif hérlendis. "Við höfum ekkert að fela. Þess vegna eru bankaumsvif okkar á Íslandi", eða eitthvað í þessum dúr.

Þegar netbólan sprakk á Íslandi þá sá enginn nokkra framtíð í þessum tölvufyrirtækjum og mátti vart heyra á þau minnst. Ég heyrði um daginn að einstaklingar sem fengu eldskírn sína í erkifyrirtæki netbólunnar, Oz, rækju í dag hátt í tug öflugra sprotafyrirtækja í þessum geira. Raunar rétti Oz úr kútnum úti í Kanada og gerði góða hluti á endanum. Fyrirtækin fóru þegar netbólan sprakk en fólkið reynslan og þekkingin var til staðar en er nú að skapa arð fyrir þjóðfélagið.

Það sem ég er að segja er að þrátt fyrir að allt hafi farið til andskotans í bönkunum þá eru samt hæfileikaríkir ungir viðskiptamenn og konur sem hafa fengið reynslu af geiranum og kannski ættum við að reyna að útbúa tækifæri fyrir þetta fólk til að nýta þessa þekkingu og reynslu. Við megum ekki festast í því að aldrei megi höndla með peninga á Íslandi aftur.


mbl.is Obama: Ekki sömu leið og Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Margt er skrítið í mannshausnum, en þessar vangaveltur ganga nú af öllu fram. Beint úr öskunni í eldinn.

 Ekki hugnast mér nú þessi váfleygi draumur þinn, og mun ég koma mér hið snarasta úr landi ef að á að hrinda slíkri exelskjals idíotík í framkvæmd í boði framsóknar og jakkafataklæddra sAuðmanna. 

Ísland og fjármál í sömusetningu munu ekki njóta trausts á alþjóðavísu næstu áratugina eftir þetta gjaldþrot sem við súpum nú seiðið af vegna spillingu og einkavinavæðingu síðustu 18 ára sem tekin var að láni af einkavinum Sjáfstæðis og Framsóknarflokks eins og enginn væri gjalddaginn.

Og þegar Bandaríkin tala um Ísland sem víti til varnaðar í þróun efnahagsmála, þá er nú lágt risið fyrir vora þjóð og ber að varast blautadrauma um að gera Ísland aðskattaparadísar.. Nema menn og konur vilji nú ólmir ilja sér við eldinn við pókerspil.

Bjarni Hallsson (IP-tala skráð) 20.3.2009 kl. 00:35

2 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Ég er sammála þér að það geta leynst tækifæri í þessu. Ef við tökum af alvöru á þeim sem settu bankana og kerfið á hausinn með sýndarviðskiptum með gæsluvarðhaldi og uppgjöri á þeim málum, þá gætum við átt von á að byggja nýtt kerfi uppúr rústunum af þessu.

Eitt er víst að við getum núna náð athygli fjölmiðla erlendis og þannig hugsanlega haft forskot á marga aðra í þessu.

En það kerfi þyrfti að vera byggt á öðrum gjaldmiðlum, t.d. að hér yrði alþjóðlegur gjaldeyrismarkaður starfandi í samvinnu við erlenda banka og fjármálastofnanir. Mér finnst ólíklegt að það væri hægt að byggja nýja bankastarfsemi utan um krónuna aftur amk ekki í bráð, þótt við notum hana sjálf sem innanlandsgjaldmiðil.

Ástþór Magnússon Wium, 20.3.2009 kl. 03:03

3 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

Þú negldir þetta í fyrstu efnisgrein.

Rúnar Þór Þórarinsson, 20.3.2009 kl. 04:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband