Leita í fréttum mbl.is

Ekki gera ekki neitt!

Það er mín skoðun að rétt sé að samþykkja Icesave-samningana. Sem kjósandi Framsóknarflokksins skora ég á þingmenn flokksins að gera það. Hver og einn er þó vitaskuld bundinn við sína sannfæringu og ég virði það. Ég vil bara að hver og einn leggi kalt mat á stöðuna og kjósi eftir því sem viðkomandi þykir best fyrir þjóðina.

Ég tek undir flest það sem Mörður Árnason segir hér.

Ég get líka tekið undir upptalningu Teits Atlasonar hér, eða allt þar til hann fer að froðufella yfir Sigurjóni Árnasyni og telja upp drauma sína um hlekki og blóð. Ég nenni hvorki að eyða orðum né hugsunum í þessa bankagæja. Skítakommentið um Sigmund er líka, jah, skítakomment. Við þurfum heldur ekkert að vera sammála um allt.

Þau alvarlegu mistök voru gerð að leyfa bönkunum að starfrækja þessa innlánsreikninga í útibúum og þannig á ábyrgð Íslendinga. Við þurfum að axla ábyrgð á þessum mistökum. Það er hvorki gott né sanngjarnt en það er staðreynd.

Það besta sem við getum gert er að horfast í augu við vandann, ganga frá samningum og hefjast handa við uppbygginguna. Við getum þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og hvar hefur komið fram hvernig við eigum að geta þetta? Nú er ekki ljóst hvort eða hvenær eignir Landsbankans ganga upp í þessa lántöku. Á meðan safnar lánið vöxtum, ásamt öllum hinum gjaldeyrislánunum sem ríkið er að taka.

Það hefur einfaldlega ekki verið sýnt fram á hvernig í ósköpunum við eigum að geta aflað gjaldeyris til að greiða þó ekki sé nema vextina af þessum lánum, jafnvel þó allar okkar gjaldeyristekjur rynnu til þess.

Þar til sýnt hefur verið fram á hvernig við eigum að borga er alger firra að samþykkja þessa skuldbindingu, burt séð frá því hvort við berum ábyrgð á henni yfir höfuð.

Sigurður E. Vilhelmsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 10:22

2 Smámynd: Gissur Jónsson

Ég er sammála þér að það versta sem við gerum er að gera ekki neitt og í raun að miklu leyti það sem hefur hrjáð þjóðina frá því í október.

Hins vegar er ég ekki sammála þér að samþykkja eigi þennan samning vegna þess að ólíkt lokaorðum þínum "Við getum þetta." tel ég að þessi samningur verði einmitt til þess að við getum þetta ekki.

Í raun er þetta nauðarsamningur sem við getum ekki staðið undir og því þjónar það engum tilgangi að samþykkja það sem við vitum fyrirfram að við stöndum ekki undir. Eða teljum við að það sé ábyrgt að samþykkja hluti sem ekki er hægt að standa við?

Bestu kveðjur

Gissur Jónsson, 22.6.2009 kl. 12:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband