Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Ég veit hvað ég heyrði!

Ég heyrði Steingrím Jóhann Sigfússon segja að ef ríkið kæmi inn í Flugleiðir þá opnist möguleikar á pólitískri ákvarðanatöku um "þjóðfélagslega hagkvæma áfangastaði". Allt sneri þetta að spurningunni hvort ekki væri hægt að koma á millilandaflugi um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

Áður en ég kom þá var hann búinn að tala um rekstrarerfiðleika Flugleiða, það hef ég eftir öðrum fundarmönnum.

Ég vek athygli á því að Steingrímur svarar ekki sjálfur fyrir orð sín. Andlitslaus yfirlýsing ráðuneytisins er látin duga. Ég veit ekki til þess að neinn fulltrúi úr fjármálaráðuneytinu hafi verið á þessum fundi annar en ráðherrann sjálfur. Þar voru hins vegar einhverjir tugir manna, frambjóðendur og fulltrúar atvinnulífsins á Fljótsdalshéraði.

Af hverju er Steingrímur ekki spurður persónulega? Ef hann ætlar að þræta fyrir orð sín verður hann að sannfæra okkur öll um að við höfum heyrt ofheyrnir!


mbl.is Tilhæfulaust að ríkið taki Icelandair yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustur vinur

Nú hefur DV birt háalvarleg leyniskjöl þar sem fram kemur að ég er hliðhollur Framsóknarflokknum. Ég efast ekki um að þetta hefur komið mínum nánustu í opna skjöldu!

Það má vart á milli sjá hvor tíðindin eru meira sláandi, að ég sé "vinur" Framsóknarflokksins eða að Ómar Ragnarsson sé "óvinur" hans.

En spurningin er þessi: Ef ég er vinur Framsóknarflokksins þarf ég þá ekki að bjóða honum í afmælið mitt?


Þetta með stríðið og Framsókn

Einhverjum þótti það víst fyndið þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði á fundi í kvöld að framsóknarmenn væru á móti stríðum. En þetta er raunar hverju orði sannara hjá honum.

Þegar Halldór Ásgrímsson tók þá ákvörðun á sínum tíma að styðja innrás Bandaríkjamanna og annarra bandamanna þeirra inn í Írak, þá gerði hann það í óþökk meginþorra framsóknarmanna. Samband ungra framsóknarmanna, með Dagnýju Jónsdóttur og Birki Jón Jónsson í broddi fylkingar, ályktuðu gegn þessum stuðningi og óánægjan innan flokksins var mikil.

Þessi ákvörðun Halldórs var sennilega uppahafið að endalokunum á ferli hans sem stjórnmálamanns. Hann missti þarna stuðning margra af elstu og bestu stuðningsmönnum flokksins. Það var nú síðast í dag sem einn allra dyggasti framsóknarmaður sem ég þekki var á skrifstofunni hjá mér að tala um það hvað hann hefði verið óánægður með Halldór á þessum tíma. það var svo árið 2007 sem Jón Sigurðsson, þáverandi formaður flokksins baðst afsökunar á þessum stuðningi, flestum framsóknarmönnum til mikillar gleði.

Sigmundur Davíð var með orðum sínum að lýsa tilfinningum grasrótarinnar. Þeirrar sömu grasrótar og ákvað að styðja hann til formanns og fela honum það verkefni að leiða nýja Framsókn. Þessi sama grasrót vildi gera upp við fortíðina á heiðarlegan hátt og bæta fyrir það sem rangt var gert. Það er í umboði þessa fólks sem nýr formaður talar. Fólksins sem var alla tíð á móti Íraksstríðinu.


"Engum ærlegum manni er sæmandi..."

Þessi ályktun er gömul. Það er augljóst enda nokkrir aðrir flokkar búnir að birta þær upplýsingar sem SUS-arar, í einhverri aumkunarverðri tilraun til þess að spinna sig upp í þessu styrkjamáli, kalla eftir.

En þið skuluð ekki hafa mín orð fyrir því hvað þetta er ömurleg ályktun. Hér getið þið lesið að þessi ályktun varð þess valdandi að einn harðasti Sjálfstæðismaður sem ég þekki sagði sig úr stjórn SUS. Guðfræðingurinn og viðskiptasiðfræðingurinn Stefán Einar Stefánsson fékk upp í kok þegar það átti að bera þennan spunagraut á borð fyrir alþjóð.

Hann sagði m.a. í yfirlýsingu:

"Í ljósi þessarar ályktunar Sambandsins, sem samin var og samþykkt að frumkvæði formanns þess, hefur undirritaður ákveðið að segja sig úr stjórn þess. Engum ærlegum manni er sæmandi að leggja nafn sitt við spuna af þessu tagi enda ljóst að ábyrgð þeirra manna sem þar eru bornir lofi og trausti lýst á, bera mesta ábyrgð á þessu spillingarmáli sem lengi mun verða í minnum haft og standa sem minnisvarði um menn sem töpuðu áttum og um leið virðingunni fyrir sjálfum sér."

Mæl þú manna heilastur nafni!


mbl.is Aðrir flokkar fylgi fordæmi Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nótt hinna löngu hnífa

Það hlýtur að hafa komið nýkjörnum formanni Sjálfstæðisflokksins illilega í opna skjöldu að upplýsingum um tugmilljóna styrki til flokksins hafi verið lekið til fjölmiðla. Það er ekki gott að segja hvaðan sá leki kemur. Eins er líklegt að þar sé um að ræða einhvern starfsmann rannsóknaraðila eða einhvers annars sem hafi tekið eftir færslunni og blöskrað.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Manni sýnist að Bjarni ætlar að gera það besta úr vondri stöðu og höggva niður nokkra pólitíska andstæðinga í leiðinni. Nótt hinna löngu hnífa er runnin upp innan Sjálfstæðisflokksins og ekki er gott að segja hverjir munu liggja í valnum áður en yfir líkur.

Það er augljóst að það eru innanbúðarmenn sem lekið hafa þessum upplýsingum um aðkomu Guðlaugs Þórs að málinu. Davíðs-Engeyjar-liðið hefur aldrei þolað Guðlaug né flesta þá sem röðuðu sér í kringum Geir Hilmar Haarde. Nú á að láta kné fylgja kviði. Og til þess er notað beinasta leiðin, blaðið sem nýbúið er að kaupa og Agnes á Leiti vinkona þeirra.

Þó gamli foringinn hafi látið fallast á sverðin (bæði það 30 milljóna og seinna það 25 milljóna) mun það ekki duga til að bjarga pólitískum ferli helstu skjólstæðinga Geirs. Andri Óttarsson er búinn að vera og þetta hlýtur að vera högg fyrir Deigluklíkuna í heild, Borgar Þór, Þórlind, Erlu Ósk og allt þetta lið. Þau hafa staðið þétt upp við Guðlaug Þór og nú hefur verið reitt hátt til höggs gegn honum.

Ég spái því að von bráðar muni hins ýmsu Sjálfstæðisfélög í höfuðborginni, þ.e. þau sem Björn, Bjarni og Illugi hafa mest ítök í, fara að álykta gegn Guðlaugi. Þegar er farið að hrópa á hreinsun, en það er ljóst að nýkjörinn formaður ætlar sér að standa hvítþveginn af málinu og að auki standa yfir höfuðsvörðum allra helstu andstæðinga sinna í leiðinni. Svona á að gera það besta úr hlutunum.

Ég held að Valhöll eigi sannarlega eftir að standa undir nafni næstu daga.


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott skref

Ég er mikill áhugamaður um siðareglur og finnst mikilvægt að slíkar reglur séu í gildi sem víðast. Það hefur lengi verið landlægur ósiður hér á landi að líta svo á að sé eitthvað löglegt, þá sé það í lagi. Siðareglur eru nauðsynleg viðbót við almenna löggjöf til að tryggja að ráðamenn taki ábyrgð á gjörðum sínum.

Í Framsóknarflokknum er mikil hreyfing í þá átt að taka forystu í siðbot í íslenskum stjórnmálum. Við höfum ekki hreinan skjöld í þessu frekar en aðrir flokkar en batnandi mönnum er best að lifa.

Hér má lesa ályktanir síðasta flokksþings okkar en á bls.  44 í skjalinu er að finna ályktun um siðareglur Framsóknarflokksins og þar á eftir ályktun um opinberar stöðuveitingar.


mbl.is Semja siðareglur fyrir ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.