Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Á að þegja?

Hér fyrir ekki löngu síðan voru Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn. Oft heyrðist þá sú gagnrýni að þingið væri hunsað og ekki á það hlustað, og það kannski með réttu.

Mér finnst hafa orðið ákveðin breyting til batnaðar, að því leyti að allir flokkar í þinginu virðast virkir og vinnustaðurinn lifandi. Þannig á líka þingið að vera.

Þess vegna blöskrar mér málflutningur þeirra sem segja að nú eigi þingið að þegja og leyfa ríkisstjórninni að vinna í friði! Sumar mannvitsbrekkurnar segja að það eigi að ganga svo langt að senda þingið heim! Hver ætlar þá að taka að sér hlutverk Kim Jong-Il og leiða þjóðina sem einvaldur?

Þingið er þarna til þess að stjórna, til þess eru þingmennirnir kosnir. Starfið þar gengur út á opinberar umræður í þingsal og umfangsmikil nefndastörf. Hvort tveggja er nauðsynlegt.

Ríkisstjórnin situr í umboði þingsins og auðvitað á þingið, stjórnarsinnar jafnt sem stjórnarandstæðingar að ræða mál og takast á um það sem menn eru ósammála um. Ef ríkisstjórnin er ekki að standa sig, sem hún er ekki að gera, þá eiga þingmenn að gagnrýna hana. Það er enginn skrípaleikur, það er lýðræði.

Það sem er í gangi í þinginu núna er ekki málþóf, þó sumir snillingarnir hér á vefnum telji það greinilega. Það er ekki hægt að taka málfrelsi af þingmönnum þó menn séu ósammála þeim. Það eru nefnilega töluverðar líkur á að allir þingmenn eigi sér mörg skoðanasystkin úti í samfélaginu. Þeirra skoðanir eiga líka að fá að heyrast.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og margir aðrir...

...er ég nú að upplifa það að missa vinnuna. Þetta er vissulega óþægilegt, sérstaklega í ljósi þess að engan fæ ég uppsagnarfrestinn. Í samningi mínum var nefnilega ákvæði um að tímabundin ráðning mín rynni út um leið og kosið yrði. Að vísu var við samningsgerðina ekki reiknað með að það yrði fyrr en 2011 en skjótt skipast veður í lofti.

Þá reiknuðu nú flestir með því þegar samningurinn var gerður að ráðning aðstoðarmanna þeirra þingmanna sem næðu endurkjöri yrði sjálfkrafa framlengd, enda hef ég ennþá aðgang að netfangi mínu hjá þinginu og hefur starf mitt ekki breyst neitt frá kjördegi að ég taldi. Ég hefði greinilega mátt lesa samninginn minn betur.

Ég er því kominn í þá stöðu að eiga ekki fyrir útgjöldum um mánaðamótin og hef engan fyrirvara til að finna mér nýja vinnu. Það er ömurlegt. Ég er reyndar heppnari en margir að því leyti til að ég hef aðra vinnu á móti en því miður þá dugir hlutastarf ekki til að borga það sem þarf að borga.

Það er reyndar rétt að taka fram að ég er ekkert bitur yfir þeirri ákvörðun að leggja aðstoðarmannakerfi landsbyggðarþingmanna niður. Það er pólitísk ákvörðun hverju sinni og nú þarf að spara og sýna aðhald. En ég vil líka minna þá á sem hvað harðast hafa gengið fram í umræðunni að þetta var jú samt vinnan mín og þær tekjur sem ég notaði til að borga af íbúðinni minni, bílnum mínum og kaupa í matinn. Ef menn vilja gera mér greiða þá mættu menn stilla gleði sinni yfir þessu í hóf. A.m.k. á opinberum vettvangi.

Leiðrétting 19:00

Ég fékk sendan póst þess efnis að ég fengi þriggja mánaða uppsagnarfrest frá mánaðamótunum eftir kjördag. Ég er mjög þakklátur fyrir það. Misskilningurinn hjá mér varð vegna þess að í fréttum í dag sá ég þessa athugasemd um að samningurinn hefði runnið út við kosningar. Þegar ég las ráðningarsamninginn sá ég það svart á hvítu og hélt að þannig fengi ég engan uppsagnarfrest. En í reglum Alþingis um aðstoðarmenn kemur fram að ef kjörtímabilið styttist, eins og raunin varð nú, gildi almennar reglur um uppsögn. Svona geta meira að segja lögfræðingar misstigið sig.


mbl.is Aðstoðarmannakerfið afnumið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í alvöru talað...

..., hver hitar egg í örbylgjuofni?!?

Ég held að Rangers verði að splæsa í matreiðslunámskeið.


mbl.is Fótboltamaður slasaðist við að hita egg í örbylgjuofni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið er ég ánægður með þetta

Ég hef lengi verið á móti þessari skyldu sem hvílt hefur á karlmönnum á þingi um að þeir verði að vera með hálstau í ræðustól Alþingis. Ég legg þetta hreinlega að jöfnu við það að konum yrði gert skylt að vera í pilsi, þetta er svo kjánalegt.

Auðvitað eiga þingmenn að sína virðingu fyrir umhverfi sínu og vera snyrtilegir til fara. En það er ekki hægt að setja neinar fastmótaðar reglur um það. Þarna verðum við að treysta smekkvísi þingmanna. Ekki það að ef ég yrði einhvern tíma þingmaður þá gengi ég líklega oftast með bindi, en það á ekki að vera skylda.

Þesi regla hefur leitt af sér undarleg atvik. Mig minnir að ég hafi heyrt að Einari Oddi Kristjánssyni heitnum hafi verið meinað að taka til máls þar sem hann var í rúllukragabol innan undir jakkanum en ekki með hálstau. Á yngri árum var Halldór Ásgrímsson víst snupraður vegna klæðaburðar og meinað að taka til máls, en hann var í leðurjakka, en þó með bindi. Þetta verður sérstaklega hjákátlegt þegar horft er á þær konur sem sitja á þingi. Þeim er treyst fyrir smekkvísinni og engar formúlur gefnar um þeirra klæðaburð. Einhver umræða varð um leðurbuxur Kolbrúnar Halldórsdóttur hér einu sinni en þær kostuðu hana þó ekki réttinn til að taka til máls.

Ég er hins vegar ósammála Þór Saari um ávörpin. Ég held að það sé mikilvægt að viðhalda einhverju stöðluðu ávarpi þegar rætt er um kollegana. Það virkar að mínu viti sem nokkurs konar neyðarhemill í mestu hitamálum þar sem auðvelt er að verða dónalegri en maður ætlar sér. En ég skal játa að ég skil ekki af hverju ráðherrar eru settir skör hærra en þingmenn. Kannski má aðeins straumlínulaga þetta með því að taka upp ávarpið "virðulegur" í stað "háttvirtur" og "hæstvirtur" 


mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungliðaflokkurinn minn

Ég má til að monta mig aðeins. Ég hef reynt að halda því fram að ungliðahreyfingin í Framsóknarflokknum sé áhrifameiri en víðast hvar annars staðar. Oft hefur verið lýst frati á þessa skoðun mín og utanaðkomandi haldið því fram að flokkurinn sé gamlingjaflokkur og brandarinn um síðasta unga framsóknarmanninn hefur verið vinsæll. Því er gaman að geta tilkynnt eftirfarandi:

-Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins er 34 ára og félagi í félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík. Hann er yngsti formaður stjórnmálaflokks á Íslandi í dag.

-Birkir Jón Jónsson varaformaður flokksins er þrítugur og félagi í félagi ungra framsóknarmanna á Siglufirði. Hann er yngsti varaformaðurstjórnmálaflokks á Íslandi í dag.

-Eygló Þóra Harðardóttir er aldursforseti forystu flokksins. Hún er 36 ára. Hún er eini forystumaður flokksins sem tlheyrir ekki SUF. Hún fór yfir þann þröskuld um síðustu áramót gamla konan ;o)

-Enginn þingmaður flokksins er yfir fimmtugu. Elst eru Siv Friðleifsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, 47 ára.

-Meðalaldur þingflokksins er 39,2 ár og er hann langyngsti þingflokkurinn, tæplega 10 árum yngri að meðaltali en þeir næstu. Meðalaldur allra annara þingflokka er yfir 48 ár. Þannig eru þeir allir eldri að meðaltali en elsti þingmaður Framsóknarflokksins.

-Allir þingmenn Framsóknar eru með eigin "profile" á facebook. Enginn annar flokkur státar af þessu. Þá er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eini formaður stjórnmálaflokks sem er með sinn eigin "profile". Þeir láta sér nægja stuðnings- og aðdáendasíður.

Ég held menn þurfi ekkert að velta því lengi fyrir sér í hvaða flokki ungt fólk hefur mest áhrif.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband