Leita í fréttum mbl.is

Vegna skrifa Sigrúnar Blöndal

Sigrún Blöndal bæjarfulltrúi Héraðslistans hélt á bæjarstjórnarfundi í gær ágæta ræðu í tilefni af frestun á flutningi bókasafns Héraðsbúa inn í grunnskólann á Egilsstöðum. Þessa ræðu sína hefur hún svo birt hér.

Í ræðunni er margt gott og við deilum sannarlega sýn á margt, en þó ekki allt eins og gengur og gerist. Sérstaklega erum við ekki sammála um það að ný grunnskólabygging sé hafin yfir gagnrýni, en um það má ræða síðar. Í tilefni af þessum skrifum vil ég hins vegar halda til haga eftirfarandi punktum um flutning bókasafnsins.

1. Hugmynd um flutning bókasafnsins inn í grunnskólann kom fram á liðnu hausti. Menningar- og íþróttanefnd annars vegar og fræðslunefnd hins vegar lögðust ekki gegn flutningnum en báðar nefndir ítrekuðu að þetta gæti aðeins verið bráðabirgðalausn. Bæjarráð samþykkti aukafjárveitingu vegna flutnings safnsins á árinu 2010. Í raun hefur engu verið breytt hvað þetta varðar og ef niðurstaðan af endurskoðun málsins í heild verður að flutningur safnsins sé besti kosturinn í stöðunni verður safnið flutt á þessu ári og engum ákvörðunum verið snúið við.

2. Starfsmaður sveitarfélagsins kom að máli við undirritaðan vegna flutnings safnsins en starfsmenn höfðu ákveðið að hann skyldi fara fram í lok júlí og byrjun ágúst. Erindið var að kanna hvort andstaða væri við málið meðal nýkjörinna pólitískra fulltrúa. Ég gerði grein fyrir því að ákveðin umræða hefði verið í mínum ranni um aðra nýtingu á aukarými í grunnskólanum, þ.e. hvort starfsemi tónlistarskólans gæti átt heima þar. Að auki voru uppi efasemdir um að grunnskólinn væri besta staðsetningin fyrir bókasafnið. Ég spurði eftir því hvort að það væri mikið mál að fresta þessum flutningi á meðan að þau mál væru könnuð nánar. Þetta taldi ég eðlilegt enda erfitt að eiga við orðinn hlut og sjaldan verið talið heppilegt að rasa um ráð fram. Í framhaldinu ræddi ég við allmarga aðila sem að málinu koma, starfsmenn bókasafnsins og starfsmenn annarra safna í húsinu auk skólastjóra grunnskólans og menningar- og frístundafulltrúa. Af svörum allra þessara aðila taldi ég ljóst að enginn sá verulega annmarka á því að fresta þessum flutningi á meðan að málið væri skoðað nánar. Það lá einnig fyrir að það væri á engan hátt í andstöðu við afgreiðslu nefndanna eða bæjarráðs þar sem aðeins var talað um flutning ótímasett eða á árinu 2010.

3. Málið var tekið fyrir á fyrsta fundi menningar- og íþróttanefndar eftir sumarleyfi. Þar var því vísað til bæjarráðs enda snertir málið fleiri en eina nefnd. Bæjarráð fól fræðslunefnd að kanna nýtingarmál grunnskólans og nærliggjandi bygginga og ljúka því starfi fyrir októbermánuð. Þarna er þessu máli komið í eðlilegt stjórnsýsluferli og þar mun að sjálfsögðu verða unnið í góðu samráði við alla fulltrúa í viðkomandi nefndum og ráðum. Þessu til viðbótar stendur til að skoða betur þarfir bókasafnsins í samráði við nýráðinn bókasafnsfræðing og forstöðumann safnsins sem hefur ekki áður átt aðkomu að málinu.

Ég tel að málið allt sé því í eðlilegu ferli. Ég vil ítreka að ég tel ástæðulaust að munnhöggvast verulega um þetta mál þar sem að allir aðilar vilja aðeins það besta fyrir bókasafnið, tónlistarskólann, grunnskólann og aðrar þær stofnanir sem að málinu koma. Ég treysti því að málið verði leyst farsællega og í góðri sátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tjörvi Hrafnkelsson

Sæll Stefán,

Gagnrýnin snýr ekki að efnislegu inntaki málsins, því eins og þú veist þá vann Sigrún Blöndal bókun bæjarráðs með meirihlutanum. Það eru hins vinnubrögðin við ákvarðanatökuna.

Þú segir að starfsmaður hafi komið að máli við þig ti...l að kanna viðhorf kjörinna fulltrúa til þessa flutnings og þú svarar með því að vísa til umræðna í þínum ranni um að svo væri. Síðan fer þú af stað og ræðir við einhverja aðila um málið, en enga kjörna fulltrúa, allavega ekki formann viðkomandi nefndar, því eitthvað lítið vissi hann þegar ræða átti þetta á þeim fundi þar sem þetta var tekið fyrir.

Minnihlutinn er hinsvegar algerlega sniðgenginn í kringum þessa ákvarðanatöku, en við hinsvegar spurð út í málið af starfsfólki og öðrum sem töldu sig málið varða. Við höfðum engin svör, því hvergi var til stafur um þessa frestunarákvörðun.

Sigrún vísaði til meirihlutasamnings ykkar og Á-listans um gagnsaæ vinnubrögð og hvernig þið viljið tryggja gott samstarf við fulltrúa allra flokka. Þessi framvinda í málinu er engan vegin þess eðlis, það hlýtur þú að sjá! Þetta er heldur ekki fyrsta málið sem meirihlutinn vinnur svona, því auglýsing bæjarstjóra var unnin á sama hátt fyrr í sumar.

Meirhlutanum ætlar því að ganga illa að standa við fyrstu setningar málefnasamningsins!

Tjörvi Hrafnkelsson, 19.8.2010 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband