Leita í fréttum mbl.is

Dauðinn í Írak

Í dag var birt á vefsíðunni Wikileaks myndband sem var sannarlega skelfilegt að horfa á. Það sýnir hvernig bandarískir hermenn fella á annan tug Íraka í tveimur árásum. Myndbandið er á margan hátt óhugnanlegt og er mjög merkilegt innlegg í umræðu um stríðið í Írak, réttlætingu þess sem og stríðsrekstur almennt og gott að það er orðið opinbert.

En af því að umræðan um myndbandið mun verða mjög mikil, tilfinningarnar miklar og yfirlýsingarnar ansi stórar langar mig að leggja orð í belg um það sem mér sýnist að við sjáum og sjáum ekki á þessu myndbandi.

Á Pressunni er að finna þennan texta í frétt um myndbandið:

"Nýtt myndband á vef Wikileaks varpar ljósi á árás Bandaríkjahers á óbreytta borgara í úthverfi Baghdad í Írak. Meðal þeirra sem létust voru blaðamenn frá Reuters fréttastofunni og írösk börn. Árásin var gerð úr Apache þyrlu Bandaríkjahers og heyrast samskipti hermannanna sem gátu ekki beðið eftir að fá að skjóta. Fólkið var óvopnað."

Í þessu myndbandi falla ekki írösk börn. Tvö  börn verða fyrir árás og særast og er engin ástæða til að gera lítið úr því. En það breytir því ekki að frétt Pressunnar er ekki rétt hvað þetta varðar. Þetta er nógu slæmt, það þarf ekki að gera þennan viðburð neitt hörmulegri en hann er.

Í frétt Pressunnar er því slegið föstu að fólkið hafi verið óvopnað. Ég hef horft á myndbandið þrisvar. Ég get ekki betur séð en að a.m.k. tveir menn í hópnum sem uphaflega er ráðist á séu vopnaðir. Að auki virðist ljóst að bandarísku hermennirnir töldu einnig að ljósmyndarinn frá Reuters og aðstoðarmaður hans væru vopnaðir vegna ljósmyndabúnaðarins sem þeir báru. Kannski undarleg mistök en ekki alveg fjarstæðukennd þó.

Bandaríski herinn stóð þarna í átökum við vopnaða hópa heimamanna. Þarna var á ferð hópur manna og a.m.k. hluti mannanna voru vopnaðir. Ef við tökum með í reikninginn veruleika vopnaðra átaka og sleppum því um stundarsakir að velta fyrir okkur réttlætingu á stríðsátökum yfir höfuð, þá get ég ekki sagt hér og nú með fullri vissu að fyrri árásin hafi verið óréttlætanleg.

Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um seinni árásina. Hún er skelfileg. Þar er greinilega verið að koma særðum manni til hjálpar og það er bara ekki réttlætanlegt að gera árás á ný undir þeim kringumstæðum. Enginn er vopnaður og börn í bílnum. Það er þessi árás sem á að hafa afleiðingar fyrir þá sem framkvæmdu. Þetta er óverjandi.

En það sem er jafnvel ennþá óhugnanlegra er viðhorf hermannanna sem um ræðir. Margítrekað lýsir skyttan von sinni að særður maður teygi sig í vopn til að geta réttlætt það að skjóta hann til bana. Í öllu finnst manni einhvern veginn eins og þeir ýki aðstæður til að geta fengið heimildir til aðgerða, eins og t.d. fjölda þeirra sem voru í hópnum.

Það er kaldhæðnislegt að hermennirnir virðast vera sér meðvitaðir um hvað þeir mega og hvað ekki. Þess vegna leggja þeir áherslu á "rétta" hluti þegar þeir óska eftir heimild til aðgerða. Eins og t.d. það að bíllinn sem kom sé ekki bara að ná í særða heldur líka að safna saman vopnum, þótt ekkert bendi sérstaklega til þess að vopn séu á staðnum þar sem bíllinn er eða nokkur að safna neinu slíku saman.

Það fylgir því að vera hermaður að sú staða getur komið upp að þú þarft að drepa. Það er veruleiki hermennsku. En það er hins vegar ekki skilyrði að njóta þess að drepa. Það er heldur ekki skilyrði að geta gert hvað sem er tl að mega fá að beita ítrustu hörku og njóta þess í botn. Þau viðhorf sem orð hermannanna í myndbandinu lýsa eru óhugnanleg. Ég held að Bandaríkjamenn þurfi ekki lengur að leita skýringa á því af hverju þeim er ekki tekið sem frelsandi hetjum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hugsandi fólk hlýtur að spyrja sig hversu marktækar frásagnir og skýringar bandaríska hersins eru á öðrum svipuðum atburðum?

Axel Jóhann Hallgrímsson, 5.4.2010 kl. 23:08

2 identicon

Ég botna satt að segja ekkert í þessum pistli þínum Stefán. Við skulum staldra við þessa setningu þína "bandarísku hermennirnir töldu einnig að ljósmyndarinn frá Reuters og aðstoðarmaður hans væru vopnaðir vegna ljósmyndabúnaðarins". Þeir "töldu" þá vera vopnaða. Sátu í þyrlu í nokkuri hæð og héldu að þeir væru vopnaðir. Hvaða rugl er þetta?

Ég held að Framsóknarmenn ættu að vera fyrstir til að fá rannsóknarnefnd um það hvernig það gat átt sér stað að við tókum þátt í þessu rugli. Við berum ábyrgð vegna ákvarðana DO og Halldórs Ásgrímssonar á þessu. Eins gott að taka til heima hjá sér.

kv

Björn S. Lárusson (IP-tala skráð) 5.4.2010 kl. 23:26

3 Smámynd: Skeggi Skaftason

Er í lagi með þig??

Bandaríski herinn er innrásarherí Írak. Þetta er ekki þeirra land.

Og þú getur ekki sagt með fullri vissu að fyrri árásin hafi verið "óréttlætanleg"? Af því grunur er um að í hverfinu hafi verið skotið úr riffli eða hvað það nú var, þá er að þínu mati kannski mögulega réttlætanlegt að senda af stað árásarþyrlu og drepa átta menn??

Sorgleg viðhorf.

Skeggi Skaftason, 5.4.2010 kl. 23:33

4 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Sérkennilegt viðhorf Stefáns.

 Má vera að einhverjir mannanna hafi borið vopn, en ekki var séð að þeir væru ógnandi.Eins og sé eitthvað skrýtið að að menn beri með sér vopn til sjalfsvarnar við þessar aðstæður. Vill svo til að Bandaríkamenn sjálfir telja það til mannréttinda að fá að eiga og bera vopn heima fyrir. Ættu þeir þá skv. því að vera réttdræpir ef þeir yrðu á vegi eigin hermanna án þess að munda þau gegn nokkrum?

Kristján H Theódórsson, 5.4.2010 kl. 23:54

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

big mistake Stefán, Nú munu bloggdýrin rífa þig í sig.  Í bloggheimum eiga nefnilega allir að vera á móti dýradrápum og mannadrápum, góðir við tengdó og bölva ríkisstjórninni. Ef þú vogar að vera öðruvísi ertu persona non grata.

Good luck

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.4.2010 kl. 00:19

6 identicon

Þeir sem studdu Davíð og Halldór hljóta að skammast sín í dag. Hægrimennska er eitthvað súkt fyrirbæri sneitt allri samúð? Hikuðu ekki við að styðja blóðugt ólöglegt stríð.

Valsól (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 10:03

7 identicon

Verð að taka undir mér þér Stefán núna, þetta er raunsætt viðhorf hjá þér.

(IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 11:52

8 identicon

Saddam Hussein sagði, þið munið fá ykkar annað Vietnam,ef þið ráðist á Írak. USA náði að flýja frá Vietnam,með tapað margra ára stríð, sem þeir höfðu ekkert útúr, voru nær því en nokkru sinni að verða gjaldþrota. Enn eru þeir innikróaðir í Írak, engu hafa þeir náð til sín í þessu stríði heldur, ætluðu þó að stela olíunni á nokkrum dögum þar, en hafa háð sóðaleg morð á saklausu fólki í mörg ár í landinu, gjaldþrot heimafyrir blasir við, og ekki víst að þeim takist að flýja frá landinu lifandi, eins og mörgum þeirra tókst þó í Víetnam, þúsundir þeirra lágu dauðir þar eftir, til einskis.  Stefnir í sama farið í Írak.  Fáir átta sig samt á þvi að einkareknu framleiðslufyrirtækin í USA græða á sprengju og vítisvélaframleiðslu sinni á meðan allt fólkið er drepið. Gróðann hirða svo eigendur verksmiðjanna. 

Robert (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.