Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Dauðinn í Írak

Í dag var birt á vefsíðunni Wikileaks myndband sem var sannarlega skelfilegt að horfa á. Það sýnir hvernig bandarískir hermenn fella á annan tug Íraka í tveimur árásum. Myndbandið er á margan hátt óhugnanlegt og er mjög merkilegt innlegg í umræðu um stríðið í Írak, réttlætingu þess sem og stríðsrekstur almennt og gott að það er orðið opinbert.

En af því að umræðan um myndbandið mun verða mjög mikil, tilfinningarnar miklar og yfirlýsingarnar ansi stórar langar mig að leggja orð í belg um það sem mér sýnist að við sjáum og sjáum ekki á þessu myndbandi.

Á Pressunni er að finna þennan texta í frétt um myndbandið:

"Nýtt myndband á vef Wikileaks varpar ljósi á árás Bandaríkjahers á óbreytta borgara í úthverfi Baghdad í Írak. Meðal þeirra sem létust voru blaðamenn frá Reuters fréttastofunni og írösk börn. Árásin var gerð úr Apache þyrlu Bandaríkjahers og heyrast samskipti hermannanna sem gátu ekki beðið eftir að fá að skjóta. Fólkið var óvopnað."

Í þessu myndbandi falla ekki írösk börn. Tvö  börn verða fyrir árás og særast og er engin ástæða til að gera lítið úr því. En það breytir því ekki að frétt Pressunnar er ekki rétt hvað þetta varðar. Þetta er nógu slæmt, það þarf ekki að gera þennan viðburð neitt hörmulegri en hann er.

Í frétt Pressunnar er því slegið föstu að fólkið hafi verið óvopnað. Ég hef horft á myndbandið þrisvar. Ég get ekki betur séð en að a.m.k. tveir menn í hópnum sem uphaflega er ráðist á séu vopnaðir. Að auki virðist ljóst að bandarísku hermennirnir töldu einnig að ljósmyndarinn frá Reuters og aðstoðarmaður hans væru vopnaðir vegna ljósmyndabúnaðarins sem þeir báru. Kannski undarleg mistök en ekki alveg fjarstæðukennd þó.

Bandaríski herinn stóð þarna í átökum við vopnaða hópa heimamanna. Þarna var á ferð hópur manna og a.m.k. hluti mannanna voru vopnaðir. Ef við tökum með í reikninginn veruleika vopnaðra átaka og sleppum því um stundarsakir að velta fyrir okkur réttlætingu á stríðsátökum yfir höfuð, þá get ég ekki sagt hér og nú með fullri vissu að fyrri árásin hafi verið óréttlætanleg.

Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um seinni árásina. Hún er skelfileg. Þar er greinilega verið að koma særðum manni til hjálpar og það er bara ekki réttlætanlegt að gera árás á ný undir þeim kringumstæðum. Enginn er vopnaður og börn í bílnum. Það er þessi árás sem á að hafa afleiðingar fyrir þá sem framkvæmdu. Þetta er óverjandi.

En það sem er jafnvel ennþá óhugnanlegra er viðhorf hermannanna sem um ræðir. Margítrekað lýsir skyttan von sinni að særður maður teygi sig í vopn til að geta réttlætt það að skjóta hann til bana. Í öllu finnst manni einhvern veginn eins og þeir ýki aðstæður til að geta fengið heimildir til aðgerða, eins og t.d. fjölda þeirra sem voru í hópnum.

Það er kaldhæðnislegt að hermennirnir virðast vera sér meðvitaðir um hvað þeir mega og hvað ekki. Þess vegna leggja þeir áherslu á "rétta" hluti þegar þeir óska eftir heimild til aðgerða. Eins og t.d. það að bíllinn sem kom sé ekki bara að ná í særða heldur líka að safna saman vopnum, þótt ekkert bendi sérstaklega til þess að vopn séu á staðnum þar sem bíllinn er eða nokkur að safna neinu slíku saman.

Það fylgir því að vera hermaður að sú staða getur komið upp að þú þarft að drepa. Það er veruleiki hermennsku. En það er hins vegar ekki skilyrði að njóta þess að drepa. Það er heldur ekki skilyrði að geta gert hvað sem er tl að mega fá að beita ítrustu hörku og njóta þess í botn. Þau viðhorf sem orð hermannanna í myndbandinu lýsa eru óhugnanleg. Ég held að Bandaríkjamenn þurfi ekki lengur að leita skýringa á því af hverju þeim er ekki tekið sem frelsandi hetjum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband