Leita í fréttum mbl.is

Hvar er framsalsbeiðnin?

Nú er allt að fara á haus út af þessum Pólverja sem æsifréttamenn eru þegar farnir að kalla ,,Sveðjumorðingjann". Ekki hef ég nú séð neitt um það hvaða þátt hann er talinn eiga í þessu manndrápi úti í Póllandi en við skulum ekki láta það skemma fyrir góðu nafni.

Einhverjir, m.a. sjálfur dómsmálaráðherra okkar, hafa haldið því fram að glæpamenn leiti orðið hingað til lands vegna þess að erfiðara sé en ella að fá þá framselda héðan. Mér finnst þetta nú eitthvað orðum aukið. það er alveg rétt að innan ESB-ríkjanna ganga hlutirnir hraðar fyrir sig, enda eðlilegt að þau lönd sem í bandalaginu eru séu nátengdari hvert öðru um löggæslu heldur en öðrum löndum. Þar skilst mér að handtökuskipun í einu landi dugi til þess að lögreglan í öðru landi handtaki viðkomandi og sendi hann heim. Ísland er ekki í ESB og þess vegna er ekki óeðlilegt að það sé eitthvað aðeins meira á bak við handtöku manns hér en pólsk handtökuskipun.

Það er hins vegar ekki stórmál að krefjast framsals. Það er eiginlega alveg stórmerkilegt að það sé ekki búið að því nú þegar, þ.e.a.s. ef um er að ræða jafn stórhættulegan glæpamann og margir vilja vera láta. Pólsk lögregluyfirvöld hafa eitthvað viljað meina að flóknar framsalsreglur tefji fyrir málinu, sem er hreint rugl að mínu viti. Ef pólska lögreglan hefði unnið vinnuna sína þá væri nú þegar komin fram framsalsbeiðni. Fram að því þá hefur íslenska lögreglan í sjálfu sér ekkert tilefni til að skipta sér af málinu.

Eftir að framsalsbeiðni er komin fram er hins vegar heimilt að handtaka viðkomandi og jafnvel úrskurða hann í gæsluvarðhald á meðan að farið er með mál hans. Eitthvað mætti kannski slípa til löggjöf um framsal sakamanna að því er varðar samskipti embætta, en mín reynsla segir mér að það komi óþarflega margar stofnanir hérlendis að málinu. Það er hins vegar minni háttar atriði og að öðru leyti er framsalslöggjöfin ágæt, þó Hæstiréttur hafi nú reyndar túlkað hana á þann hátt sem mér er á móti skapi.

Það er hins vegar gaman að lesa færslu Björns Bjarnasonar um málið. Hann upplýsir að við höfum samið um aðild að evrópsku handtökutilskipuninni og verið sé að vinna að lagabreytingum í tilefni af því. Athyglisvert að sjá Björn vera þarna í fararbroddi við að dásama regluverk ESB, en nóg um það. Ég er spenntur að sjá þessa nýju löggjöf því eitthvað segir mér að réttindi sakborninga verði ekki ofarlega á baugi þegar hún mun líta dagsins ljós, en það er bara tilfinning.

Björn dansar hinsvegar, viljandi eða óviljandi, á mörkum hins sanna og ósanna þegar hann segir:

Sæki erlendir sakamenn hingað til lands vegna strangra skilyrða fyrir framsali, sannar það enn, hve miklu skiptir, að íslensk löggjöf sé í takt við það, sem er í öðrum ríkjum, svo að hér skapist ekki neitt lagaskjól fyrir afbrotamenn.

Það eru ekkert sérstaklega ströng skilyrði fyrir framsali sakamanna hérlendis. Það þarf hins vegar að fara fram á framsal, en handtökuskipunin ein dugir ekki. Það er nú helsti munurinn og get ég ekki ímyndað mér að það sé t.d. mikið erfiðara að fá Pólverja framseldan frá Íslandi heldur en t.d. Noregi, nú eða Bandaríkjunum.

Við skulum aðeins slappa af í umræðunni og ekki láta einhver svona tilfelli gefa ráðamönnum tækifæri til að setja á einhver gerræðislög sem gera ráð fyrir því að hægt sé að handtaka mann á hádegi og senda hann út með fangaflugi eftir kaffi.


mbl.is Pólverjar hafa áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.