Leita í fréttum mbl.is

Nauðsynleg aðgerð

Ég held að það hafi verið af nauðsyn sem ákveðið var að ríkissjóður kæmi inn í Glitni með þessum hætti. Fjármálakerfið verður að verja og það er mikilvægt að senda þau skilaboð út á markaðina að á bak við íslensku bankanna sé kerfi sem tryggir þá gegn hörmungum. Sambærilegir hlutir eru líka að gerast í löndunum í kringum okkur s.s. Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á þrennu.

1) Hefði ekki mátt vera búið að gera eitthvað fyrr til að hjálpa fjármálakerfinu í heild? Ég held að það sé alveg ljóst að fullkomið skeytingarleysi stjórnvalda fram að þessu hefur ekki hjálpað bönkunum í sinni baráttu á lausafjármörkuðum, frekar en það hefur hjálpað nokkrum öðrum hér á landi.

2) Í Bandaríkjunum þar sem nú er verið að ganga frá sögulegum björgunarpakka ríkisins til handa fjármálafyrirtækjum er lögð þung áhersla á það að stjórnendur bankanna séu ekki leystir út með stórgjöfum í tilefni af því að þeir hafa komið fyrirtækjum sínum á ríkisfjárframlög. Ég hef ekkert á móti því í sjálfu sér að einkafyrirtæki borgi asnalega há laun (held reyndar að það sé óhollt fyrir sálina á þeim sem þeirra „njóta“ en það er annað mál). Þegar ríkið hefur þurft að stíga inn með skattfé finnst mér hins vegar lögmálin breytast all hressilega. Ég er ekki aðdáandi John McCain en hugmynd hans, að enginn stjórnandi fyrirtækis sem ríkið hefur bjargað eigi að hafa hærri laun en æðsti embættismaður hins opinbera, er ekki alvitlaus.

3) Hvað ætlar ríkisstjórnin svo að gera fyrir okkur sem erum að sligast undan hækkunum? Verður eitthvað meira gert til að styrkja gengi krónunnar? Það er grátlega augljóst að það verður t.d. að veita íbúðalánasjóði heimild til að endurfjármagna húsnæðislán þeirra sem eru með lán sín hjá bönkunum. Að öðrum kosti sjáum við fram á fjöldagjaldþrot einstaklinga. Það getur ekki verið að þessi helvítis ríkisstjórn ætli að loka augunum fyrir þeim persónulegu þjáningum sem það hefur í för með sér. Ekki allt góða fólkið í Samfylkingunni. Eða hvað?

Og fyrst ég er farinn að tala um Samfylkingunna. Hvar er bóndinn á Skarði? Skúffuráðherra bankamála hefur ekki sést í öllum þessum hræringum. Þessi hálfdrættingur fékk viðskiptaráðuneytið í sinn hlut við ríkisstjórnarmyndunina og rökin fyrir því að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti upp í hendur tveggja ráðherra voru m.a. þau að fjármálageirinn væri orðinn svo umfangsmikill. Nú gerast ein þau stærstu tíðindi sem orðið hafa á íslenskum bankamarkaði og ráðherrann er hvergi sjáanlegur. Er niðurlæging Björgvins Guðna Sigurðssonar ekki orðin fullkomin?


mbl.is Geta treyst styrk Glitnis áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.