Leita í fréttum mbl.is

Senn líður nú að kosningum... - Bæjarmálablaður I

Eitthvað hefur heyrst að menn sakni kosningabaráttu á Fljótsdalshéraði. Að sumu leyti má það til sanns vegar færa að framboðin hafi verið nokkuð róleg í tíðinni fram til þessa. Hins vegar veit ég að mikið starf hefur verið unnið og við því má búast að baráttan héðan af verði snörp og hörð.

Ekki ætlum við Framsóknarmenn að skorast undan því og í tilefni kosninganna ætla ég mér að skrifa nær daglegar hugleiðingar um bæjarmál fram til kosninga. Ég vona að þið njótið vel. Ég vil ítreka að athugasemdakerfi við færslurnar er opið með tveimur fyrirvörum. Í fyrsta lagi ætlast ég til að menn séu sæmilega vandir að virðingu sinni óháð því hvort menn skrifa undir nafni eður ei. Í annan stað hef ég mótað mér þá stefnu að skrifa ekki sjálfur athugasemdir við eigin færslur. Ef athugasemdir kalla á viðbrögð er því ekki við því að búast að ég svari strax heldur þá í annarri bloggfærslu síðar.

En hér að neðan er fyrsti pistillinn.

-----------------------

Það má búast við því að fjármál skipi stóran sess í kosningabaráttunni í ár. Það er skiljanlegt. Skuldir sveitarfélagsins hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum og nú er svo komið að áætlanir gera ráð fyrir því að 250 milljónir vanti upp á að sveitarfélagið geti að óbreyttu greitt af lánum sínum. Augljóslega þarf að spara.

Við Framóknarmenn leggjum upp með forgangsröðun í sparnaði. Það verður að leita allra leiða áður en til niðurskurðar kemur í grunnþjónustu. Eðlilegt er að spurt sé hvar á að skera niður. Hér vil ég tilgreina tvö dæmi.

Einhverra hluta vegna hefur sveitarfélagið ekki séð ástæðu til að bjóða út suma þá þjónustu sem keypt er að staðaldri, t.d. endurskoðunarþjónustu. Með reglubundnum útboðum ætti að vera hægt að spara fé sem fer í vinnu sem þessa. Akureyrarbær hefur nýlega boðið út endurskoðun sveitarfélagsins og hefur það að sögn skilað verulegum ávinningi. Það verður eitt af fyrstu verkum framsóknarmanna að afloknum kosningum að leggja til að fari verði í sambærilegt útboð hér.

Tölvukerfi sveitarfélagsins og stofnana þess eru eðlilega nokkuð umfangsmikil. Þar er notast að mestu við hugbúnað sem greiða þarf afnotagjöld af, eins og t.d. Microsoft Windows stýrikerfið. Í nánast öllum tilfellum er hægt að skipta þessum leyfisskilda hugbúnaði út fyrir ókeypis hugbúnað. Þarna er hugsanlega hægt að spara töluverðar fjárhæðir árlega og sömuleiðis í endurskoðun á fyrirkomulagi aðkeyptrar þjónustu við tölvukerfin.

Hlultir eins og þessir munu ekki einir og sér leysa allan fjárhagsvanda sveitarfélagsins en margt smátt gerir eitt stórt og við í framsókn viljum leita allra sparnaðarleiða sem mögulegar eru.


Dauðinn í Írak

Í dag var birt á vefsíðunni Wikileaks myndband sem var sannarlega skelfilegt að horfa á. Það sýnir hvernig bandarískir hermenn fella á annan tug Íraka í tveimur árásum. Myndbandið er á margan hátt óhugnanlegt og er mjög merkilegt innlegg í umræðu um stríðið í Írak, réttlætingu þess sem og stríðsrekstur almennt og gott að það er orðið opinbert.

En af því að umræðan um myndbandið mun verða mjög mikil, tilfinningarnar miklar og yfirlýsingarnar ansi stórar langar mig að leggja orð í belg um það sem mér sýnist að við sjáum og sjáum ekki á þessu myndbandi.

Á Pressunni er að finna þennan texta í frétt um myndbandið:

"Nýtt myndband á vef Wikileaks varpar ljósi á árás Bandaríkjahers á óbreytta borgara í úthverfi Baghdad í Írak. Meðal þeirra sem létust voru blaðamenn frá Reuters fréttastofunni og írösk börn. Árásin var gerð úr Apache þyrlu Bandaríkjahers og heyrast samskipti hermannanna sem gátu ekki beðið eftir að fá að skjóta. Fólkið var óvopnað."

Í þessu myndbandi falla ekki írösk börn. Tvö  börn verða fyrir árás og særast og er engin ástæða til að gera lítið úr því. En það breytir því ekki að frétt Pressunnar er ekki rétt hvað þetta varðar. Þetta er nógu slæmt, það þarf ekki að gera þennan viðburð neitt hörmulegri en hann er.

Í frétt Pressunnar er því slegið föstu að fólkið hafi verið óvopnað. Ég hef horft á myndbandið þrisvar. Ég get ekki betur séð en að a.m.k. tveir menn í hópnum sem uphaflega er ráðist á séu vopnaðir. Að auki virðist ljóst að bandarísku hermennirnir töldu einnig að ljósmyndarinn frá Reuters og aðstoðarmaður hans væru vopnaðir vegna ljósmyndabúnaðarins sem þeir báru. Kannski undarleg mistök en ekki alveg fjarstæðukennd þó.

Bandaríski herinn stóð þarna í átökum við vopnaða hópa heimamanna. Þarna var á ferð hópur manna og a.m.k. hluti mannanna voru vopnaðir. Ef við tökum með í reikninginn veruleika vopnaðra átaka og sleppum því um stundarsakir að velta fyrir okkur réttlætingu á stríðsátökum yfir höfuð, þá get ég ekki sagt hér og nú með fullri vissu að fyrri árásin hafi verið óréttlætanleg.

Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um seinni árásina. Hún er skelfileg. Þar er greinilega verið að koma særðum manni til hjálpar og það er bara ekki réttlætanlegt að gera árás á ný undir þeim kringumstæðum. Enginn er vopnaður og börn í bílnum. Það er þessi árás sem á að hafa afleiðingar fyrir þá sem framkvæmdu. Þetta er óverjandi.

En það sem er jafnvel ennþá óhugnanlegra er viðhorf hermannanna sem um ræðir. Margítrekað lýsir skyttan von sinni að særður maður teygi sig í vopn til að geta réttlætt það að skjóta hann til bana. Í öllu finnst manni einhvern veginn eins og þeir ýki aðstæður til að geta fengið heimildir til aðgerða, eins og t.d. fjölda þeirra sem voru í hópnum.

Það er kaldhæðnislegt að hermennirnir virðast vera sér meðvitaðir um hvað þeir mega og hvað ekki. Þess vegna leggja þeir áherslu á "rétta" hluti þegar þeir óska eftir heimild til aðgerða. Eins og t.d. það að bíllinn sem kom sé ekki bara að ná í særða heldur líka að safna saman vopnum, þótt ekkert bendi sérstaklega til þess að vopn séu á staðnum þar sem bíllinn er eða nokkur að safna neinu slíku saman.

Það fylgir því að vera hermaður að sú staða getur komið upp að þú þarft að drepa. Það er veruleiki hermennsku. En það er hins vegar ekki skilyrði að njóta þess að drepa. Það er heldur ekki skilyrði að geta gert hvað sem er tl að mega fá að beita ítrustu hörku og njóta þess í botn. Þau viðhorf sem orð hermannanna í myndbandinu lýsa eru óhugnanleg. Ég held að Bandaríkjamenn þurfi ekki lengur að leita skýringa á því af hverju þeim er ekki tekið sem frelsandi hetjum.


Spunakarlar og kérlingar

Nú er stólað á að hægt sé að hræra upp í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þau sjá þar sína von um að eyðileggja fyrstu skynsamlegu hugmyndir sem komið hafa frá þessari ríkisstjórn um almenna leiðréttingu skulda.

Hugmyndir VG um félagslegt réttlæti felst nefnilega í því að sá sem hafði miklar tekjur og tók bílalán sem hann réði við greiðslubyrðina af á þeim tíma og keypti sér dýran bíl, hann á ekki skilið hjálp. Sá sem var með lægri tekjur og tók bílalán sem hann réði við greiðslubyrðina af á þeim tíma og keypti sér þar af leiðandi ódýrari bíl, honum skal hjálpað.

VG vill deila út sinni tegund af félagslegu réttlæti, náð og miskunn. Skítt með það að báðar fjölskyldur eru í sömu greiðsluerfiðleikunum. Skítt með neyð og andlega áþján þeirra sem ekki ráða við afborganirnar. Ef þú keyptir dýran bíl þá átt þú ekkert gott skilið!

Að mínu viti þá er þetta eins og að koma að drukknandi manni og byrja á að segja: "Áður en ég kasta til þín bjarghringnum verð ég að fá að vita hvernig þú lentir í sjónum. Varstu fullur? Ertu búinn að haga þér með skynsamlegum hætti? Ertu viss um þú eigir ekki bara skilið að drukkna...?"


mbl.is Lán dýrra bíla afskrifuð mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hagsmuna eru samtök lánþega að gæta?

Í fyrsta skiptið sem þessi ríkisstjórn sýnir einhverja viðleitni til að hjálpa þeim sem skulda orðið tugprósentum meira en nokkurn gat órað fyrir þá er að ekki bara svo að lánafyrirtækin bregðist við með ópum og óhljóðum heldur snarast sjálfskipaðir fulltrúar þessara skuldara fram og fordæma viðleitnina!

Í fyrsta lagi þá finnst mér óvarlegt að tjá sig nokkuð fyrr en frumvarpið liggur fyrir. Reynslan af umræðu undanfarna mánuði er sú að oft er nokkur munur á yfirlýsingum og hugmyndum og síðan því sem lagt er á borðið þegar allt kemur til alls. En hið jákvæða í þessu er að ríkisstjórnin virðist vera að sjá ljósið. Það er þörf á almennum aðgerðum til leiðréttingar skulda. Þessu hefur Framsóknarflokkurinn talað fyrir í rúmt ár og gott að einhver er farinn að leggja við hlustir.

En helsta hugsanavillan í málflutningi samtaka lánþega virðist vera sú að verði gengistryggðu lánin dæmd ólögleg að þá hverfi þau bara. Ef skilmálarnir verða dæmdir ólöglegir þá er jafn líklegt að upphaflega lánsfjárhæðin verður reiknuð upp með einhverjum hætti, en vextirnir verði ekki einir látnir duga. Ég ætla að taka fram að ég sé sterk rök með báðum hliðum í þessu máli og því tel ég algjörlega óvíst hvað verður. En sennilega mun aðeins allra besta mögulega niðurstaða geta tryggt lántakendum betri stöðu heldur en almenn færsla niður í 110% af markaðsvirði. Kostir slíkrar aðgerðar eru hins vegar að hún kæmi til framkvæmda strax, án óvissu um stöðu einstakra lántakenda eins og gæti orðið í kjölfar niðurstöðu í dómsmálinu fræga og myndi að auki vonandi blása lífi í markað með notaða bíla.

En það er tilgangslaust að ræða þetta mikið. Vinstri hreyfingin grænt framboð mun án efa drepa þessa viðleitni félagmálaráðherra í fæðingunni. Viðbrögð fyrirtækjanna í dag benda til þess að þau ætli sér að treysta á þetta. VG ætlar sér nefnilega að deila út félagslegu réttlæti eftir eigin forskrift. Skammta réttlætið eins og skít úr hnefa. Í hugarheimi þeirra þá eiga þeir sem tóku bílalán fyrir Land Cruiser nefnilega skilið að eiga í skuldavanda og vandi þeirra og fjölskyldna þeirra er bara þeim sjálfum að kenna. En fólki sem tók lán fyrir Yaris á að bjarga.

Þeir vilja dæma eins og Guð á himnum um hvort líf mannanna verðskuldi náð. Og þess vegna mun þessi flokkur aldrei styðja við almenna leiðréttingu. Þeir eru of uppfullir af fordæmingu til þess.


mbl.is Saka Árna Pál um ódýrt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegt

Gaman að sjá hvað Vigdís á Egilsstöðum fékk góðan stuðning.

Hún er öflugur fulltrúi bændastéttarinnar í heild og einkum og sér í lagi Austfirðinga.

Til hamingju Vigdís. 


mbl.is Haraldur endurkjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til fortíðar

Gaman að morgunblaðið geti ekki einu sinni haft kjördæmanöfnin rétt.

Norðurlandskjördæmi vestra og eystra eru jú ekki lengur til. Norðvestur- og Norðausturkjördæmi eru það víst heillin.

Nema náttúrulega að ákveðið hafi verið að Austfirðingar fái bara ekkert að kjósa um Icesave. Það væri svo sem eftir öðru í viðleitni ríkisstjórnarinnar við að kæfa allt sem hægt er hérna fyrir austan.


mbl.is Umboðsmenn já- og nei-fylkinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyrðu! Ég þekki þennan með kúna...

Það er ekki að spyrja að því. Alls staðar eru fulltrúar Fljótsdalshéraðs (hins landfræðilega, ekki sveitarfélagsins, rétt að taka það fram svo ég verði ekki drepinn af óðum Fljótsdælingum með heykvíslar) að gera það gott í spurningakeppni.

Egill er augljóslega afburða nemandi þarna á Hvanneyri, enda er hann svo mikill sveitamaður og svo mikið innan úr afdal að vegurinn endar heima hjá honum. Maður kemst ekkert lengra inn í dal, a.m.k. ekki á siðmenntuðum vegi.

Enda er þetta afburða gott fólk, hann og öll hans fjölskylda.


mbl.is Keppt um Viskukúna 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvarlaði aldrei að ykkur...

...að þessum ágætu ungmennum yrði best forðað frá fíkniefnum með því að vera í góðu samstarfi við fulltrúa nemenda, leitast við að höfða til skynsemi þeirra og bera virðingu fyrir þeim.

Nei við skulum frekar læsa dyrunum og sleppa hundunum á þau...

Einhverjum kann að finnast þetta full dramatískt hjá mér, en þó að stjórnendur Tækniskólans sjái það ekki þá er það víst skerðing á persónufrelsi að læsa útgöngum, þó einn hafi reyndar verið opinn, og láta lögreglu framkvæma leit á nemendum án nokkurra staðfestra grunsemda. Bara í "forvarnaskyni".

Svona framkoma skaðar tengslin milli ungmenna og yfirvalda og gerir bara illt verra í forvarnastarfi.


mbl.is Vilja forða nemendum frá fíkniefnaneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.