Leita í fréttum mbl.is

Langir dagar - Ræðan af borgarafundinum

Það eru langir dagar núna, alveg eins og þeir eiga að vera. Móttökur eru almennt góðar og það er mín tilfinning að margir séu að ákveða sig þessa dagana. Vonandi verða heimsóknir okkar framsóknarmanna til þess að sem flestir ákveði að kjósa okkur. Við reynum a.m.k. okkar allra besta til að sannfæra fólk.

Í gær var haldinn opinn borgarafundur allra flokka og var hann mjög vel sóttur. Ég hef ákveðið að setja ræðuna mína af fundinum hér inn. Þetta er vitaskuld ekki alveg orðrétt því maður getur nú ekki hangið alveg á blaðinu allan tímann.

---------------------------------

Fundarstjóri, ágætu kjósendur. Á laugardaginn nýtið þið ykkur það vald að velja ykkur nýja sveitarstjórn. Það er á ykkar ábyrgð að kynna ykkur stefnu framboðanna og fólkið sem þar er í fyrirsvari, og gera síðan upp við ykkur hverjum á að veita atkvæði ykkar. Við Framsóknarmenn bjóðum okkur fram til starfa fyrir ykkur og biðjum um ykkar atkvæði, ykkar stuðning til að knýja fram breytingar á stjórn sveitarfélagsins.

Kosningar snúast um tvennt. Þær snúast um frammistöðumat og þær snúast um framtíðarsýn. Verk núverandi meirihluta eru nú borin undir ykkar dóm. Við teljum að Sjálfstæðisflokkur og Héraðslistinn verðskuldi falleinkunn fyrir sín störf. Samandregnar skuldir sveitarfélagsins nema nú um 6,6 milljörðum króna. Fjárfestingar, m.a. í þessari byggingu sem við stöndum nú í, eru að sliga sveitarfélagið þannig að það er mat sérfræðinga að við þolum vart meiri skuldsetningu. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur kosið að kalla “Trausta fjármálastjórn”.

Því hefur að undanförnu mjög verið hampað af hálfu sveitarfélagsins að byggingarkostnaður Egilsstaðaskóla hafi verið undir kostnaðaráætlun. En byggingarkostnaðurinn skiptir mun minna máli heldur en fjármögnunarkostnaðurinn, það sem við komum til með að borga fyrir bygginguna þegar öll kurl eru komin til grafar. Framsóknarmenn vildu frá upphafi fara aðra leið þegar kom að viðbyggingu við grunnskólann hér. Framsóknarmenn lögðu til hóflegri viðbyggingu þar sem gert var ráð fyrir tónlistarskóla og áframhaldandi skólastarfi á Eiðum. Ef farið hefði verið að tillögum framsóknarmanna hefðu sparast hundruð milljóna króna við þessa framkvæmd. Þetta teljum við að kjósendur verði að taka til greina þegar þeir ákveða hvern á að kjósa á laugardag.  

Málsvörn núverandi meirihluta þegar kemur að skuldastöðu sveitarfélagsins hefur mikið til snúist um að skuldastaða okkar sé ekki svo slæm þegar borið er saman við önnur sveitarfélög á landinu. "Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" söng Megas hér í eina tíð, og það er greinilega viðkvæði meirihlutans í aðdraganda þessara kosninga.

Við Framsóknarmenn teljum hins vegar að það dugi ekki að stinga hausnum í sandinn. Fjárhagsstaðan er slæm, því verður ekki á móti mælt og þessum vanda þarf að mæta af fullri einurð. Það er ljóst að framundan er erfiður niðurskurður. Það verður ekki gaman að leiða það starf, en við framsóknarmenn bjóðumst eigi að síður til að leiða það og standa reikningsskap okkar ákvarðana frammi fyrir hverjum sem er. Við lofum því að leita allra leiða til að spara áður en frekar verður höggvið í grunnþjónustuna þar sem þegar hefur verið hert að bæði starfsfólki og þjónustunotendum. Við munum leggja til endurskoðun á stjórnsýslu sveitarfélagsins með hagræðingu og sparnað að leiðarljósi. Þar eins og annars staðar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Öðruvísi vinnum við okkur aldrei út úr núverandi vanda.

Næstu verkefni snúa síðan að því að auka tekjur sveitarfélagsins. það verður aðeins gert með átaki í atvinnumálum. Það þarf að styðja við bakið á frumkvöðlum í sveitarfélaginu til að virkja þann kraft sem í þeim býr. Sveitarfélagið þarf að stðja við atvinnustarfsemi sem er fyrir, m.a. með því að beina viðskiptum sveitarfélagsins í auknum mæli til fyrirtækja innan þess. Þannig hagnast báðir aðilar. En síðast en ekki síst þarf að skapa hér hagstætt umhverfi til að laða hingað ný atvinnufyrirtæki, bæði innlenda og erlenda fjárfestingu. Þarna getur sveitarfélagið beitt sér með því að veita nýjum fyrirtækjum ívilnanir, og lækka opinber gjöld á atvinnurekstur. Slíkar aðgerðir munu borga sig til lengri tíma litið.

Mig langar ágætu fundarmenn að taka smá tíma í að ræða þann tón sem kominn er í umræðu fyrir þessar kosningar. Mér var sagt áður en ég bauð mig fram að ég myndi þurfa að þola slæmt umtal og ég myndi eignast óvildarmenn. En aldrei bjóst ég við því að þurfa á opnum fundi að bera af mér ásakanir um fjárdrátt í störfum mínum fyrir Körfuknattleiksdeild Hattar og að ég hafi á tæpum tveimur árum sett UÍA á hausinn. Þessar lygasögur og sjálfsagt aðrar keimlíkar hafa verið á kreiki og ég neyðist því hér til að bera þær af mér. Sannleikurinn er sá að UÍA skilaði hagnaði á síðasta rekstrarári og mínu eina heila starfsári hjá sambandinu. Tími minn hjá Körfuknattleiksdeild Hattar markaðist m.a. af erfiðleikum sem tengdust efnahagshruninu og því lagði ég fram fé að láni persónulega til að tryggja að starfsemin gæti gengið en ekki þyrft að stoppa í miðri á. Það var staðfest á aðalfundi deildarinnar í gær að ég á þar inni fé og unnið er að því í góðri sátt að leysa það mál. Hvað varðar innræti þeirra sem spinna upp og dreifa sorpi af þessu tagi er aðeins hægt að hafa orð Bólu-Hjálmars. “Eru þeir flestir aumingjar, en illgjarnir þeir sem betur mega”.

Góðir fundarmenn. Framsóknarmenn bjóða sig fram með lýðræðið að leiðarljósi. Við völdum á framboðslista í opnu prófkjöri þar sem allir íbúar sveitarfélagsins gátu haft sitt að segja um skipan hans. Við boðum aukinn sýnileika kjörinna fulltrúa og aukin tækifæri borgaranna til að hafa sitt að segja um stjórn sveitarfélagsins. Listann leiða ungir og ferskir frambjóðendur sem eru fullir bjartsýni á framtíð og möguleika sveitarfélagsins þó tímabundið ári illa. Þið getið deilt þessari sýn með okkur með því að setja X vð B á laugardaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.