Leita í fréttum mbl.is

Þetta var formannsræða

Guðni Ágústsson hélt góða ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins og fór vel yfir allt það sem mestu máli skiptir. Hann fór eðli málsins samkvæmt vel yfir efnahagsmálin og svartar horfur þar. Það er hins vegar ekki svo að ekki megi grípa til aðgerða, það er bara þannig að við erum ekki með ríkisstjórn sem er tilbúin til þess.

Mér þótti vænt um að heyra hann segja að við í Framsóknarflokknum höfum ekki mestar áhyggjur af bankakerfinu, ekki vegna þess að okkur sé sama, heldur vegna þess að við teljum það sterkt og geta þolað núverandi erfiðleika. En við höfum áhyggjur af fjölskyldunum í landinu og afkomu alls almennings. Það er hin rétta áhersla og verkefni alþingismanna á að vera að vinna að hagsmunum alls almennings, ekki þröngra sérhagsmunahópa.

Flestir biðu í ofvæni eftir því að Guðni myndi tjá sig um Evrópumálin. Hann tók drjúgan hluta ræðu sinnar í að ræða þau mál og eftirfarandi eru þeir þættir sem mér þótti standa upp úr.

1. Evrópumál eru á dagskrá. Ábyrgir stjórnmálamenn geta ekki haldið öðru fram í fullri alvöru. Það á að púa slíka menn niður af sviðinu.

2. Skoðanir innan Framsóknarflokksins eru ekkert annað en þverskurður af þjóðfélaginu og eðlilegt að menn séu um þetta mál ósammála. Við verðum að vera tilbúin í opna og hreinskipta umræðu um þessi mál og jafnframt verða menn að virða skoðanir þeirra sem eru ekki okkur sammála. Engin ein skoðun á þessu máli er rétthærri en önnur.

3. Guðni telur rétt að ráðast fyrst í nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar áður en sú spurning er borin fyrir þjóðina hvort ganga eigi í sambandið. Hann telur að þessa vinnu eigi að ráðast í og þannig geti henni verið lokið árið 2011.

4. Setja þarf lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákveða hvort gera á kröfur um aukinn meirihluta atkvæða, lágmarksfjölda þátttakenda eða annað.

Mér þótti ræðan hans Guðna góð og það var gott að sjá að hann talaði sem formaður sameinaðs flokks sem leitaðist við að sætta ólík sjónarmið og boða opna umræðu innan flokksins um erfið málefni. Hann nefndi að málefni varnarliðsins hefðu verið umdeild innan flokksins en aldrei leitt til varanlegs klofnings. Hið sama ætti að geta átt við um Evrópumál.

Ég er hins vegar ekki fyllilega sammála þeirri forgangsröðun að það eigi að ráðast í stjórnarskrárbreytingar og setningu almennrar löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur fyrst, áður en sú spurning er lögð fyrir þjóðina hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef verið í hópi þeirra framsóknarmanna sem vilja að þjóðin fái að segja sína skoðun á málinu sem fyrst. Það ætti að vera vandalaust að setja sérlög um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og þær reglur sem um slíka kosningu ættu að gilda. Ef þjóðin lýsti yfir vilja til umsóknar teldi ég kominn tíma á stjórnarskrárbreytingu. En ég skil röksemdir Guðna og virði þær þó ekki sé ég að öllu leyti sammála.

Ég þakka Guðna fyrir að opna fyrir heiðarlega umræðu um Evrópumálin og hlakka til að taka þátt í henni á vettvangi flokksins. Framsókn stingur ekki höfðinu í sandinn í þessu máli né öðrum.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.