Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Að skapa eigin veruleika

Ármann Jakobsson er skemmtilegur og skarpur penni sem ég hef mikið uppáhald á. En það kemur hér berlega í ljós að hann getur misstigið sig svo um munar.

Ég sá að félagar í Vinstri hreyfingunni grænu framboði deildu þessari grein víða og létu sér greinilega vel líka. Ég gat ekki orða bundist og gerði neðangreinda athugasemd:

----------------

Eruð þið ekki að grínast? Þetta er eins sú veruleikafirrtasta sýn á pólitík sem að ég hef nokkru sinni lesið. Ármann er einn af mínum uppáhalds pennum, en þetta er gjörsamlega fáránlegt.

1) Það er rétt að fjölmiðlar voru skelfilega gagnrýnis...lausir á viðskiptalífið. En að halda því fram að fjölmiðlar gangi nú harðar fram gegn sitjandi ríkisstjórn heldur en var gert, t.d. á valdatíma ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bendir til einkar valkvæðs minnis greinarhöfundar.

2) Það að segja að ríkisstjórnin sé sterk er í besta falli vafasamt. Það hefur a.m.k. sjaldan talist styrkleikamerki að stór hópur þingmanna annars stjórnarflokksins komi slag í slag með yfirlýsingar um að þeir styðji ekki tiltekin mál eða hafi verið neyddir til að styðja önnur þvert gegn vilja sínum. Það að enn hafi ekkert mál verið stöðvað er ekkert sérstakur mælikvarði á styrkleika stjórnar því þegar það fyrsta fellur, þá er stjórnin svo gott sem fallin. Það kemur sjaldan annar séns.

3) Ég er enginn hagfræðingur en mér finnst einhvern veginn ekkert sérstakt afrek að halda verðbólgu lægri í kreppu en á þenslutíma. Það er tæplega hægt að hrósa ríkisstjórninni fyrir það afrek.

Af þessu m.a. sýnist mér að það sé enginn að ganga harðar fram í að skapa sinn eigin pólitískan veruleika. Þið megið klappa fyrir þessu ef þið viljið. Þetta verður ekkert meiri sannleikur fyrir það.


Vegna skrifa Sigrúnar Blöndal

Sigrún Blöndal bæjarfulltrúi Héraðslistans hélt á bæjarstjórnarfundi í gær ágæta ræðu í tilefni af frestun á flutningi bókasafns Héraðsbúa inn í grunnskólann á Egilsstöðum. Þessa ræðu sína hefur hún svo birt hér.

Í ræðunni er margt gott og við deilum sannarlega sýn á margt, en þó ekki allt eins og gengur og gerist. Sérstaklega erum við ekki sammála um það að ný grunnskólabygging sé hafin yfir gagnrýni, en um það má ræða síðar. Í tilefni af þessum skrifum vil ég hins vegar halda til haga eftirfarandi punktum um flutning bókasafnsins.

1. Hugmynd um flutning bókasafnsins inn í grunnskólann kom fram á liðnu hausti. Menningar- og íþróttanefnd annars vegar og fræðslunefnd hins vegar lögðust ekki gegn flutningnum en báðar nefndir ítrekuðu að þetta gæti aðeins verið bráðabirgðalausn. Bæjarráð samþykkti aukafjárveitingu vegna flutnings safnsins á árinu 2010. Í raun hefur engu verið breytt hvað þetta varðar og ef niðurstaðan af endurskoðun málsins í heild verður að flutningur safnsins sé besti kosturinn í stöðunni verður safnið flutt á þessu ári og engum ákvörðunum verið snúið við.

2. Starfsmaður sveitarfélagsins kom að máli við undirritaðan vegna flutnings safnsins en starfsmenn höfðu ákveðið að hann skyldi fara fram í lok júlí og byrjun ágúst. Erindið var að kanna hvort andstaða væri við málið meðal nýkjörinna pólitískra fulltrúa. Ég gerði grein fyrir því að ákveðin umræða hefði verið í mínum ranni um aðra nýtingu á aukarými í grunnskólanum, þ.e. hvort starfsemi tónlistarskólans gæti átt heima þar. Að auki voru uppi efasemdir um að grunnskólinn væri besta staðsetningin fyrir bókasafnið. Ég spurði eftir því hvort að það væri mikið mál að fresta þessum flutningi á meðan að þau mál væru könnuð nánar. Þetta taldi ég eðlilegt enda erfitt að eiga við orðinn hlut og sjaldan verið talið heppilegt að rasa um ráð fram. Í framhaldinu ræddi ég við allmarga aðila sem að málinu koma, starfsmenn bókasafnsins og starfsmenn annarra safna í húsinu auk skólastjóra grunnskólans og menningar- og frístundafulltrúa. Af svörum allra þessara aðila taldi ég ljóst að enginn sá verulega annmarka á því að fresta þessum flutningi á meðan að málið væri skoðað nánar. Það lá einnig fyrir að það væri á engan hátt í andstöðu við afgreiðslu nefndanna eða bæjarráðs þar sem aðeins var talað um flutning ótímasett eða á árinu 2010.

3. Málið var tekið fyrir á fyrsta fundi menningar- og íþróttanefndar eftir sumarleyfi. Þar var því vísað til bæjarráðs enda snertir málið fleiri en eina nefnd. Bæjarráð fól fræðslunefnd að kanna nýtingarmál grunnskólans og nærliggjandi bygginga og ljúka því starfi fyrir októbermánuð. Þarna er þessu máli komið í eðlilegt stjórnsýsluferli og þar mun að sjálfsögðu verða unnið í góðu samráði við alla fulltrúa í viðkomandi nefndum og ráðum. Þessu til viðbótar stendur til að skoða betur þarfir bókasafnsins í samráði við nýráðinn bókasafnsfræðing og forstöðumann safnsins sem hefur ekki áður átt aðkomu að málinu.

Ég tel að málið allt sé því í eðlilegu ferli. Ég vil ítreka að ég tel ástæðulaust að munnhöggvast verulega um þetta mál þar sem að allir aðilar vilja aðeins það besta fyrir bókasafnið, tónlistarskólann, grunnskólann og aðrar þær stofnanir sem að málinu koma. Ég treysti því að málið verði leyst farsællega og í góðri sátt.


Að vakna úr dvala

Ætli það sé ekki kominn tími til að vakna úr dvala. Ég get nú að minnsta kosti reynt að sýna smá lit og blogga, hvort sem það er um fjölskyldulífið eða pólitíkina.

Það er að minnsta kosti ekki tíðindalaust á þessum vígstöðvum. Við skulum sjá hvort ekki birtist eitthvað hérna von bráðar...


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband