Leita í fréttum mbl.is

Fimm bestu - fjögurra ára hlé

Ekkert af stórtíðindum undanfarinna ára gat vakið mig af bloggblundinum. En svo langaði mig að gera kjánalegan topp fimm lista og þá fer maður auðvitað af stað...

Mér þykir mjög gaman af því að hlusta á kraftballöður. Þær áttu vitaskuld sitt blómaskeið á níunda áratugnum og snemma á þeim tíunda. Mér þykir hrein unun að hlusta á alla þessa skemmtilegu dramatík.

5. Bon Jovi - Always

Þetta lag er bara mjög vel heppnað.

4. Guns N´Roses - November rain

Þetta lag setur ný viðmið fyrir dramatík, bæði í uppbyggingu, laglínu, texta og ekki síst myndbandi...

3. Scorpions - Still loving you

Þetta er bara hrein snilld. Endalaus þungi á bak við en öskrandi gítar og endalaust há sönglína. Þetta er fegurðin ein.

2. Bonnie Tyler - Total eclipse of the heart

Alveg einstök rödd og flott lag. Hefði verið efst á lista hjá mér ef ég hefði ekki nýverið heillast af...

1. Heart - Alone

Þetta er alveg svakalega magnað lag. Lúkkið á systrunum, nú eða á hljómsveitinni í heild skemmir hreint ekki fyrir. Algjör klassík.


Þráinn Bertelsson - fyrrverandi alþingismaður

Það er að minnsta kosti þannig sem það ætti að vera.

Þetta brjálæðiskast á sér einfaldlega enga réttlætingu. Mönnnum sem láta svona út úr sér á opinberum vettvangi ætti ekki að vera sætt á þingi. Þegar brjálæðið bráir af honum hlýtur hann að sjá það sjálfur. Ef hann gerir það ekki eiga félagar hans í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs að leiða honum það fyrir sjónir.

Ef ekki eiga þeir að reka hann úr þingflokknum. Ellegar verður að líta svo á að þeir styðji orðræðu af þessu tagi.


Ríkisstjórn á villigötum

Það er vont að fylgjast með fólki sem er á villigötum. Sérstaklega þegar maður hefur ákveðna trú á að góð meining ráði för. Einhverra hluta vegna eru samt röng leið farin og sérstaklega er vont þegar menn vilja ekki hlusta á að leiðin sé röng.

Framkvæmdaráð SSA fundaði um daginn og ræddi m.a. nýkynntar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að bregðast við vanda Vestfirðinga. Fundargerð þessa fundar hefur ratað í fréttir eins og sjá má hér og er það vel. Maður vonast alltaf eftir því að einhver taki eftir skoðunum okkar og leggi við hlustir.

Það er rétt að ítreka það að því fer fjarri að einhverrar kergju gæti út í Vestfirðinga og nauðsyn þess að vinna að byggðamálum þar er öllum ljós. En útspil ríkisstjórnarinnar um daginn vekur samt verulegar spurningar. Þegar farið er yfir listann kemur í ljós að ríkisstjórnin heitir Vestfirðingum að bæta auknu fjármagni í starfsemi sem hefur verið skorin verulega niður hér á Austurlandi. Má þar sérstaklega nefna starfsemi sem hér eystra tilheyrir Þekkingarneti Austurlands en vestra Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Eins má nefna framhaldsskólana og fleiri þætti. Sama upplifun var af gerð menningarsamninga þar sem ríkið skar verulega niður fjárhæðir inn á Austurland en bætti í á Suðurnes.

Það er bjargföst skoðun okkar sem sitjum í framkvæmdaráði SSA að það sé vitlaust gefið í íslensku samfélagi í dag. Landsbyggðin virðist vera fyrsti viðkomustaður þegar kemur að niðurskurði í þjónustu og framkvæmdum. Þar má nefna þróun í opinberum störfum sem hefur fækkað á Austurlandi þrátt fyrir yfirlýst markmið um að það eigi að fjölga þeim á landsbyggðinni. Og okkur hefur ekki þótt nein goðgá að benda á það að landsbyggðin er ekki einhver baggi sem höfuðborgin stendur undir heldur fjölbreytt og lifandi samfélag sem skilar gríðarlegum tekjum í ríkiskassann og hagkerfið allt, tekjum sem skila sér mjög illa til baka.

Einhverra hluta vegna hafa einhverjir kosið að leggja þessar skoðanir framkvæmdaráðsins út á versta veg. Einn af þeim er Björgvin Valur Guðmundsson Stöðfirðingur, sem sakar okkur um hroka og að óttast og fyrirlíta höfuðborgina. Kjarninn í málflutningi hans virðist vera sá, sem við reyndar erum farin að heyra víðar, að við höfum nú fengið það sem við vildum með virkjun og álveri og eigum því bara að halda okkur saman og vera sátt.

Það er skemmst frá því að segja að ég er ósammála. Í fyrsta lagi finnst mér það merkilegt að lesa svona mikinn hroka úr því sem er í grunninn ekkert annað en málefnaleg gagnrýni á ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Í öðru lagi er ég a.m.k. ekkert tiltakanlega skelfdur við höfuðborgina. Er meira að segja staddur þar núna alveg óhræddur. Það er ekki svo að með því að segja að við teljum landsbyggðina vera verðmætaskapandi, segjum við að höfuðborgin sé það ekki. Krafan er um gagnkvæma virðingu. Að höfuðborgin og ríkisvaldið virði og taki tillit til hagsmuna landsbyggðarinnar alveg eins og eðlilegt er að gera kröfu um að við virðum og tökum tillit til hagsmuna höfuðborgarinnar. Eins og með alla sambúð systkina getur stundum skollið í brýnu, en í grunninn ríkir kærleikur á milli þessara ágætu systra, höfuðborgar og landsbyggðar.

Annars læt ég fylgja með stærstan hluta úr svari mínu á bloggi Björgvins Vals, og óska svo eftir því að menn ræði hlutina málefnalega án þess að öfgar og flokkspólitísk sjónarmið ráði för.

"Það er enginn að fetta fingur út í að unnið sé með Vestfirðingum að því að treysta byggð þar. En það er hart að þurfa að sæta því að það sé beinlínis verið að skera niður á Austurlandi meðan verið er að bæta inn í nákvæmlega sömu starfsemina á Vestfjörðum eða Suðurnesjum. Ég get nefnt fjármuni til Þekkingarnets Austurlands og inn í menningarsamninga sem dæmi. Það er ekki verið að fara fram á annað en sanngirni.

Og þýðir það að áratuga barátta Austfirðinga fyrir uppbyggingu stóriðju skilaði árangri, að við eigum enga frekari kröfu um að fjármagni hins opinbera sé dreift með jafnari hætti um landið allt? Er það lögmál í þínum huga að landsbyggðin sé í öðru sæti á eftir höfuðborginni? Eigum við Austfirðingar bara að þegja og hætta að berjast fyrir hagsmunum okkar og auknu samfélagslegu réttlæti allri landsbyggðinni til handa?

Og það er náttúrulega hreint með ólíkindum að þeir sem börðust með kjafti og klóm gegn uppbyggingu virkjunar og álvers, séu nú að segja að þetta hafi verið svo frábær framkvæmd að ríkið geti bara nánast skrúfað fyrir fjármagn hingað austur. Þetta er náttúrulega bilun."


Mogginn er sorp

Það hafa réttilega víða orðið hörð viðbrögð við „skopmynd“ sem Morgunblaðið birti í gær. Þar ákveður teiknarinn að sýna Siv Friðleifsdóttur, alþingismann og fyrrverandi ráðherra, í gervi vændiskonu. „Tilefnið“ er að Siv hefur lýst yfir vilja til að mynda nýja ríkisstjórn með Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni grænu framboði.

Þessi teikning er ógeðsleg og lýsir ótrúlegu húmorsleysi og smekkleysi manns sem ritstjóri og útgefandi Morgunblaðsins sjá ástæðu til að borga fyrir að birta „skoplega“ sýn á þjóðmálin. Það sorglega er að þetta kemur ekkert á óvart. Morgunblaðið er sem aldrei fyrr orðið skálkaskjól þeirra sem vilja stunda ómálefnalegt skítkast og subbulega pólitík í búningi „fréttakýringa“ eða einhvers álíka. Þarna er ekkert annað á ferðum en ömurleg leið til að láta vaða í pólitíska andstæðinga. Heldur einhver að þessi sama mynd hefði birst ef Siv hefði mælt með stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk?

En það sorglegasta er að þegar ég sá teikninguna í gær þá varð ég ekki einu sinni æstur. Ástæðan er sú að ég er orðinn dofinn. Ég er orðinn of vanur ógeðinu og sorpinu sem Óskar Magnússon og Davíð Oddson spúa út úr prentvélum í Hádegismóum.

Þannig er staða Morgunblaðsins í dag. Þeir geta ekki einu sinni sjokkerað lengur. Þeir eru löngu komnir á botninn. Ég ætla ekki einu sinni að segja að blaðið ætti að biðjast afsökunar. Ég veit að þeir sem þar ráða ríkjum hafa ekki til að bera þá sómatilfinningu sem þarf til þess.


Vegna niðurskurðar í heilbrigðismálum

Ég hef staðið sjálfan mig að því undanfarna daga að skrifa hér og hvar á netið langhunda um niðurksurðartillögurnar í heilbrigðismálum. Þar sem ég er ekki of duglegur að eðlisfari er ég að hugsa um að endurnýta þessi skrif og setja hér inn. Það er þó sá galli á gjöf Njarðar að sumt er náttúrulega beinlínis miðað að málflutningi annarra sem ég hef verið að skattyrðast við og því kannski ekki alltaf samhengi að lesa mín skrif ein og sér. En ég læt vaða og læt fylgja með hlekki á umræðurnar. Þar kom margt gott fram, bæði hjá þeim sem mér eru sammála og ósammála.

Athugasemdir við tengil á facebook-síðu Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns ráðherra:

"Það var nú ekki mikil skynsemi í þessu innleggi ráðherra. Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað."

"Hvenær var gerð úttekt á þessari þörf [fyrir sjúkrarúm á landsbyggðinni]? Er það sem sagt niðurstaða nákvæmrar yfirferðar að Austurland hafi ekki þörf fyrir nema 50% þeirra sjúkrarúma sem hér eru nú? Hvar eiga aldraðir að leggjast inn á sjúkrahús þegar þeir þurfa aukna þjónustu tímabundið? Hvar eiga íbúar landsbyggðarinnar að jafna sig eftir aðgerðir í hátæknisjúkrahúsum þessa lands? Hvar eigum við að fá að deyja?

Og það að ætla að laga misskiptingu í þjónustu sem íbúar á Hólmavík eða á Snæfellsnesi búa við með því að auka á misskiptinguna gagnvart öðrum er rökleysa. Með sömu rökum ættum við auðvitað bara að loka öllu sjúkrahúsum. Leggja niður alla framhaldsskóla á landsbyggðinni og sennilega alla grunn- og leikskóla líka.

Og einu sinni vissi Samfylkingin líka (a.m.k. skömmu fyrir kosningar) að það felst ákveðið réttlæti í að dreifa opinberum störfum um landið. Einu sinni var talað um störf án staðsetningar. Þetta er víst líka atvinnumál. Hvernig yrði því tekið ef að það ætti að loka 6-700 manna vinnustað í Reykjavík (OR sem dæmi) og flytja öll störfin til Egilsstaða?

Það vantar ekki skynsemi í þessa umræðu. Það vantar skynsemi í þessar tillögur."

"Já við verðum seint sammála um þetta. Ég er sannfærður um að niðurstaðan af þessu verður dýrara kerfi en við búum við í dag og mun verri þjónusta. Og ég gæti skilið það þegar talað er um að markmiðið sé að færa sjúkrahúsþjónustu á færri staði en efla í staðinn heilsugæsluna, ef þess sæi einhver merki að það ætti að efla heilsugæsluna hér á svæðinu í staðinn. En þar er bara ennþá meiri niðurskurður. Það leiðir svo aftur til þess að senda þarf fleiri suður eða norður með auknum kostnaði. Ég held við verðum aldrei sammála um að það sé skynsemi í þessu."

Athugasemd við bloggfærslu Marðar Árnasonar alþingismanns:

"Það er merkilegt að lesa það, Mörður Árnason, að þú talar í aðra röndina um að það verði að kveða niður deilur milli landsbyggðar og höfuðborgar en á hinn bóginn tekur þú þér stöðu, kyrfilega sem þingmaður Reykvíkinga og elur á deilunum. Setningar eins og „Kannski á svokölluð landsbyggð ekki eins bágt og hún lætur ef menn hætta sér í samanburðinn fyrir alvöru. Hún á hinsvegar marga grátkonur..“ og „Byggðir þar sem hetjur ríða um héruð hafa miklu betri þjónustu…“ eru ekki innlegg í yfirvegaða umræðu um málið. Skoðaðu aðeins eigin málflutning áður en þú dæmir aðra!

Sú aðstaða sem nú er komin upp er besta réttlæting á kjördæmakerfinu sem ég hef séð á undanförnum 10-15 árum. Í þessu kerfi kemur berlega í ljós skilnings- og virðingarleysi ráðuneytanna á stöðunni úti á landi. Þess vegna er svo bráðnauðsynlegt að svæði á landsbyggðinni eigi fulltrúa innan löggjafarvaldsins. Það þarf að vernda hinn smáa fyrir ofríki hins stóra. Einhvern tíma hefðu jafnaðarmenn skrifað upp á þá hugmyndafræði.

Ég skyldi vera tilbúinn að kaupa þá hugmyndafræði að það ætti að minnka sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni og efla í staðinn heilsugæsluna ef a) Það lægi að baki þessari hugmyndafræði einhver raunveruleg athugun á eðli og notkun á sjúkrþjónustu á landsbyggðinni og b) ef þess sæi einhvern stað að það sé verið að efla heilsugæsluna á þessum svæðum, en svo er alls ekki. Öll viðbót sem ég fæ séð í heilsugæslu rennur til höfuðborgarinnar.

Þessar tillögur eru ekki annað en „shock doctrine“, eins og mér sýnist þú reyndar viðurkenna. Það er verið að nota efnahagsástandið til að réttlæta pólitíska hugmyndafræði sem felst í að fækka opinberum störfum og minnka þjónustu á landsbyggðinni. Hvert er réttlætið í því? Ef þessar breytingar á að gera þá verður að gera það að undangenginni umræðu og athugunum. Ekki bara eftir geðþótta framkvæmdavaldsins.

Og heróp Kristjáns Þórs Júlíussonar, eins hallærislegt og það kann nú að hafa verið sem slíkt, snerist í raun ekki um að rústa fjárlögunum. Það snýst um að rústa þessari pólitísku hugmyndafræði sem Samfylkingin er að boða. Og það er ósköp skiljanlegt að menn hafi klappað fyrir því."

Að síðustu má svo kannski grípa niður í umræðu á facebook-síðu minni hér:

"[F]innst merkilegt að RÚV taki við fráttapöntunum frá heilbrigðisráðherra. Hvað kemur vegalengdin frá Hólmavík því við að það er verið að slátra sjúkrarýmum á Egilsstöðum? Er þetta jafnaðarmennskan í hnotskurn? Á að jafna niður á við þangað til að við erum öll komin neðan jarðar? Það er enginn læknir á Borgarfirði. Á þá ekki bara að segja upp öllum læknum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðuna??"

"Já en þú ert að tala um niðurskurð. Er það alveg eðlilegt að skera 85% niður á landsbyggðinni. Ég er ekkert að tala um 50-50 skiptingu, heldur að byrðin af niðurskurðinum verði jafnari. Fyrir svo utan að það er verið að fækka ódýrum sjúkrarúmum úti á landi og beina þjónustunni inn á dýrari sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Er það skynsamlegur rekstur?"


Sögulegir tímar

Smári Geirsson er reynslubolti í pólitík. Í erindi sem hann hélt á landsþingi Sambands íslenskrar sveitarfélaga komst hann einhvern vegin þannig að orði að það væri meira gaman að lesa um sögulega tíma en að upplifa þá. Þessu er ég býsna sammála enda verður maður hálfþunglyndur af því að hugsa um stöðu mála í þjóðfélaginu í dag, ekki síst þann anda sem er ríkjandi í stjórn- og þjóðmálum.

Á ný er komin upp sú staða að þúsundir flykkjast á Austurvöll og mótmæla. Það sem er undarlegast við viðbrögðin við þessu er að menn keppast við að greina það hvers konar fólk var og er að mótmæla. Reyna að greina á milli þess hvenær venjulegt fólk er að mótmæla og þá væntanlega hvenær fólkið sem mótmælir er óvenjulegt!

Þetta er ekki flókið í mínum huga. Þegar mótmælendafjöldinn er farinn að mælast í þúsundum þá er bróðurparturinn klárlega venjulegt fólk. Það var það vorið 2009 og það er það einnig nú. Samsetning hópanna er kannski eilítið önnur sem skýrist að einhverju leyti að því að þú ert frekar tilbúinn að rísa upp og mótmæla ríkisstjórn sem þú kaust ekki. En það er enginn reginmunur á þessum tvennum mótmælum. Aðgerðaleysi er fordæmt og þessi krafa um aðgerðir beinist að öllum stjórnmálaflokkum.

Í bæði þessi skipti hafa öfgamenn sett svip sinn á mótmælin. Núverandi aðstæður eru kjöraðstæður öfgamanna og kvenna til að koma málstað sínum á framfæri. Hvað það varðar geri ég ekki greinarmun á anarkistum, byltingarsinnuðum sósíalistum/kommúnistum eða þá hægriöfgamönnum og nýnasistum. (Auðvitað er einhver munur á boðskap þessara hreyfinga, en þær eiga það sameiginlegt að eiga auðveldara með að koma fram í dagsljósið á tímum sem þessum.) Eini munurinn er að heldur meira ber á hægriöfgamönnum þegar verið er að mótmæla vinstristjórn og svo vinstriöfgamönnum þegar mótmælin beinast gegn hægristjórn.

Þess vegna gleðst ég yfir því að í hópi mótmælenda er fólk sem að bregst við til að kæfa niður þessa öfgamenn. Ég gladdist þegar fólkið myndaði varnarmúr framan við lögregluna 2009 og ég gleðst einnig yfir því að fána nasista hafi verið kastað á bál nú. Öfgar munu aldrei leysa neinn vanda og ég vona að okkur Íslendingum lánist að gera ekki vont ástand verra með því að veita hættulegum og andlýðræðislegum öflum brautargengi.

En mótmælin núna eru ákall til stjórnmálamana um að grípa til aðgerða, og það strax. Forsætisráðherra hefur boðað að núna eigi að kalla stjórnarandstöðu til fundar og ræða samstöðu um lykilmál og jafnvel hefur verið hvíslað um þjóðstjórn. Nú reynir á pólitíska leiðtoga okkar. Þór Saari virðist þegar stefna í að falla á prófinu með því að mæta að borðinu þver og ekki reiðubúinn að hlusta. Oddvitar ríkisstjórnarinnar eiga langt í land með að ná breiðri samstöðu og þurfa sannarlega að brjóta odd af oflæti sínu til að það megi verði. Oddvitar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þurfa að sýna ábyrgð og ekki gleyma sér í innantómum stjórnarandstöðufrösum.

Mótmælin virðast hafa vakið ríkisstjórnina og vonandi stjórnarandstöðuna líka. Ég verð að vona að þetta fólk leggi tímabundna hagsmuni og persónulega misklíð til hliðar og sé tilbúið að fórna einhverju til að ná samstöðu þjóðinni til heilla. Ég vildi bara óska að ég væri bjartsýnni en ég er.


Alveg er mér sama

Nú var Geir Hilmar Haarde að láta hafa eftir sér að hann væri miður sín yfir því að sjá Framsóknarflokkinn veltast um í svaðinu.

Ó nei, ó nei. Maðurinn sem réttilega verður nú dreginn fyrir landsdóm fyrir vanrækslu í einu ábyrgðarmesta starfi sem nokkur getur sinnt er reiður við okkur.

Bú hú hú.

Alveg er mér sama!


Fordómar

Það er óneitanlega mjög miður að í nágrannalandi okkar þrífist fordómar af þessu tagi á æðstu stöðum. Ekki það að þetta virðist ekki vera mikill partýpinni og ég efast um að nokkur muni sakna hans í kvöldverðarboðinu.

En ég held að við Íslendingar ættum hins vegar að líta okkur nær áður en við tökum andköf af hneykslun yfir fordómunum. Þjóð sem hýsir viðhorf eins og þau sem áberandi eru hérna gagnvart múslimum, á ekki úr háum söðli að falla hvað þetta varðar. 

Hversu margir alþingismenn íslenskir ætlu séu á svipaðri skoðun þó þeir hafi nú meira vit á að þegja en Jenis av Rana?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband