Leita í fréttum mbl.is

Bæjarmálablaður III

Eins og áður hefur verið minnst á hér er fjárhagsstaða sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs ekki til að hrópa húrra fyrir. Það liggur fyrir að frekari niðurskurðar er þörf hjá sveitarfélaginu og það verður verkefni komandi sveitarstjórnar. Framsóknarflokkurinn gerir sér ríka grein fyrir þessu. Þegar kjósendur fara fram á tryggingar fyrir því að ákveðin þjónusta verði ekki skert er staðan sú að það er mjög erfitt að veita slíkar tryggingar. En kjósendur eiga samt rétt á svörum og við Framsóknarmenn viljum leitast við að tala skýrt. Þess vegna höfum við sett fram grundvallarsjónarmið sem við munum hafa að leiðarljósi við vinnu okkar á komandi kjörtímabili þegar kemur að ákvörðunum um niðurskurð.

Í fyrsta lagi verður að meta alla þjónustu sveitarfélagsins út frá þjónustuþegunum og gæðum þjónustunnar en ekki aðeins hvað hún kostar. Það er ekki hægt að líta t.d. á skólastofnun og horfa aðeins á tölur á blaði heldur verður að skoða hvað stofnunin færir samfélaginu fyrir þennan pening.

Í annan stað verða nauðsynlegar ákvarðanir um niðurskurð á þjónustu aðeins teknar í samráði og sem mestri sátt við bæði stjórnendur, starfsfólk og þjónustuþega. Það er ekki við því að búast að þessi sátt náist alltaf en yfirstjórn sveitarfélagsins ber a.m.k. skylda til að leita eftir henni.

Í þriðja lagi telur Framsóknarflokkurinn að ekki eigi umhugsunarlaust að beita flötum niðurskurði þannig að stjórnendum stofnana sé gert að skera niður um ákveðna prósentutölu óháð aðstæðum. Þegar slíkt er gert eru þeir sem ákvörðun taka að afsala sér ábyrgð á niðurskurðinum. Kjósendur eiga rétt á því að fulltrúar þeirra skoði mál ofan í kjölinn og taki og standi við erfiðar ákvarðanir en vísi þeim ekki með einu pennastriki á næsta mann.

Í fjórða lagi lofar Framsóknarflokkurinn því að forgangsraða þannig í niðurskurði að leitað sé allra leiða til sparnaðar á öðrum sviðum en í félagslegri þjónustu og skólakerfinu, áður en frekar verður skorið niður þar. Við getum ekki ábyrgst að þetta muni duga til en við getum lofað því að við þessa forgangsröðun verður staðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.