Leita í fréttum mbl.is

Æi þá það

Finnst nú skemmtilegra að tengja við fréttina þar sem að stórkostleg samsæriskenning mín gekk ekki eftir, s.b.r. það sem ég bloggaði hér að neðan.


mbl.is Tíu sækja um embætti vegamálastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrambinn sjálfur

Svo virðist sem ég sé ekki jafn mikill spámaður og ég hélt. Sturla Böðvarsson hefur a.m.k. ekki sótt um stöðu Vegamálastjóra og ég held að meira að segja þessum ráðherra þætti erfitt að skipa mann í embætti sem ekki hefði sótt um stöðuna.

Ó jæja. Svona getur maður skotið yfir markið stundum...


Kemur aðeins á óvart

Við skulum byrja á því að fá á hreint að það koma aldrei til greina að Hannes yrði rekinn út af þessu máli. Háskólaprófessorar eru opinberir starfsmenn og þeir eru ekki reknir fyrirvaralaust fyrir brot sem þessi. Þeir eiga rétt á áminningu fyrst.

Það kemur mér hins vegar á óvart að Hannes sé einmitt ekki áminntur. Röksemdafærslan er athyglisverð. Rektor segir í raun að brotið verðskuldi áminningu en að svo langur tími sé liðinn frá brotinu að það virki Hannesi í hag. Því er látið duga að átelja vinnubrögð hans en hann er ekki formlega áminntur.

Ég þekki það sjónarmið úr refsirétti að líði langur tími þar til niðurstaða liggur fyrir í refsimáli eigi það að koma til refsilækkunar. Það byggist á því að sú krafa sé gerð til ákæruvalds og lögreglu að hraða meðferð mála og ef mjög langur tími líði þá verði að taka til greina að einstaklingur kunni að vera búinn að breyta lífi sínu til batnaðar. Þá er þetta ákveðin svipa sem dómstólar beita gagnvart ákæruvaldinu til að hraða meðferð mála, sem er ekkert nema gott mál.

Ég hef aldrei séð þessari reglu beitt á svipaðan hátt innan stjórnsýslunnar. Ég er hins vegar ekki neinn sérfræðingur í stjórnsýslurétti . Ég vil þó benda á að fyrrverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon var talinn hafa brotið stjórnsýslulög með því að þrýsta á fyrrverandi jafnréttisstýru um að segja af sér, en hún var í héraðsdómi talin hafi brotið jafnréttislög. Í Hæstarétti var jafnréttisstýran sýknuð og því var ekki grundvöllur fyrir aðgerðum ráðherra.

Í þessu máli má því segja að ekki hefði verið unnt að beita Hannes neinum viðurlögum að stjórnsýslurétti, fyrr en einmitt núna þegar dómur um mál hans hefur gengið í Hæstarétti. Að áminna hann fyrir þann tíma hefði ekki verið rétt þar sem endanlegur dómur lá ekki fyrir. Hvort tíminn sem leið 4 ár sé óeðlilega langur er ekki gott að segja, stór mál taka oft langan tíma í kerfinu.

Er þá staðan sú að aldrei hefði verið unnt að áminna Hannes formlega? Dómskerfið sé bara of hægvirkt? Ég er frekar á þeirri skoðun að vegna þess að ekki var tækt að áminna hann fyrr en nú að þá séu rök rektors ekki skotheld og það hefði vel mátt áminna prófessorinn. En kannski er gott að hafa í huga, eins og rektor gerir, að það er ekki alltaf besta lausnin að beita fyllstu hörku. Það er víst einkenni góðra leiðtoga.


mbl.is Átelur vinnubrögð Hannesar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra!

Ágætis byrjun hjá lögreglunni.

Ef þessir bílstjórar hefðu einhverja hugmynd um hvað þeir eru að gera þá myndu þeir vita að í því sem þeir telja sig vera að stunda, sem er borgaraleg óhlýðni, felst að brjóta lög.

Þeir eiga engan rétt á því að mega gera það án afleiðinga. Svo hrauna menn yfir lögregluna sem er að sinna starfi sínu.

Í alvöru strákar, reynið að vaxa úr grasi og ekki rífa kjaft við lögguna. Það er barnalegt. 


mbl.is Mikill hiti í bílstjórum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handtaka og ákæra núna!

Þetta er náttúrulega gjörsamlega óþolandi linkind í þágu þessara raðlögbrjóta. Þetta gengur ekki lengur.

Í fyrsta lagi er ekki nokkur leið að átta sig á því fyrir hvað þessir menn standa, en þó virðast þeir vilja að löggjafinn dansi í hringi til þess að sinna sérhagsmunum vörubílstjóra. Engin stétt á kröfu til þess.

Í öðru lagi þá er ekki nokkur leið að hitta fulltrúa þessara manna á fundi. Þeir eiga sér ekki fulltrúa, þetta er einhvers konar stjórnlaus hópur í frekjukasti. Stjórnvöld hafa ekkert við þennan hóp að ræða. Þeir eru hvorki fulltrúar atvinnubílstjóra né almennings.

Í þriðja lagi þá hafa bæði fjármála- og samgönguráðherra, þrátt fyrir það sem að ofan greinir, lýst yfir vilja til viðræðna. Hvaða andskotans frekja er það þá að halda áfram aðgerðum án þess að ræða við ráðamenn, sem nota bene hafa niðurlægt sjálfa sig með því að segjast vilja tala við hópinn.

Ég krefst þess að lögregla leysi þessi mótmæli upp og ákæri þátttakendurna, þeir eru að brjóta lög fyrir allra augum og það á ekki að líðast. Saving Iceland liðum var ekki sýndur neinn skilningur, enda áttu þeir hann ekki skilið, frekar en þessir menn. 


mbl.is Buðu lögreglu upp á kaffi og vöfflur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver skyldi nú vera með sambærilega menntun?

Þessi frétt var fljóta að hverfa niður listann hér á vefnum og enginn sá ástæðu til að blogga um hana. Ég tel hins vegar víst að þetta sé undanfari stórtíðinda.

BHM hefur gagnrýnt auglýsingu um embætti vegamálastjóra þar sem auglýst er eftir umsækjendum með verkfræðimenntun eða aðra sambærilega menntun. Ég skil hins vegar ekki að bandalagið gagnrýni að kröfur til umsækjenda séu ekki nógu skýrar. Það er ekki vandamálið, heldur eru kröfurnar einmitt of nákvæmar. Hvergi í lögum kemur fram að Vegamálastjóri eigi að vera verkfræðingur og þetta lyktar því allt saman af því að það sé verið að leika hinn gamla leik að sérsníða kröfurnar að fyrirfram ákveðnum kandídat. En hverjum?

Þetta er nú ekki flóknasta fléttan. Augljóslega er verið að sníða stakkinn eftir vexti núverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, en svo heppilega vill til að hann er með BS.c próf í byggingatæknifræði. Þegar Samfylkingin samdi um að fá embætti forseta Alþingis einhvern tíma á kjörtímabilinu þá hefur það augljósalega verið partur af því samkomulagi að séð yrði um að Sturla fengi það sem hann vildi, en orðrómur hafi verið um að hann ágirntist embætti Vegamálastjóra.

Það kemur ekki sérstaklega á óvart að Kristján Möller hafi verið til í leikinn. Á sínum stutta tíma í ráðuneytinu hefur hann varla gert tilraun til að fela grímulausa sérhagsmunagæslu sína og vinaráðningar. Það er hins vegar spurning hvað kjósendum Samfylkingarinnar finnst eiginlega orðið um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.

Konan sem átti að vera höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins en beið ekki boðanna að ganga í eina sæng með þeim flokki að afloknum kosningum. Konan sem í Borgarnesi talaði fjálglega um fagmennsku í mannaráðningum, og hvar eru þau fögru orð nú? Ingibjörg hefur þvert á móti augljóslega tekið þátt í ótrúlegum pólitískum hrossakaupum þar sem blákalt var verslað með ráðuneyti, sendiherrastöður og önnur embætti að ekki sé minnst á kosningaloforð og skoðanir á einstökum málum.

Það er svo alveg kapítuli út af fyrir sig hvernig réttlæta á að gera manninn sem ber ábyrgð á Grímseyjarferjuklúðrinu og spillingunni í kringum hana og Breiðafjarðarferjuna Baldur að yfirmanni þeirrar stofnunar sem hann misfór með í þessum málum. Hann hefur jú kannski reynsluna!! 

Er það þetta sem Samfylkingin stendur fyrir?


mbl.is BHM krefst þess að staða vegamálastjóra verði auglýst að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fínar tillögur

Það væri kannski vit í að hlusta núna á Framsókn. Þingmenn flokksins vöruðu við alvarlegum afleiðingum metaukningar á ríkisúthgjöldum við gerð síðustu fjárlaga. Það var vitaskuld óðs manns æði að auka útgjöldin um 20% þegar þessi efnahagsdýfa vofði yfir, og má segja að sú ráðstöfun ríkisstjórnarinnar hafi endanlega tryggt að dýfan skall á með miklu meiri krafti en hefði þurft að verða.

Allar götur síðan þá hefur Framsóknarflokkurinn svo kallað eftir því að ríkisstjórnin fari að gera eitthvað í efnahagsmálum, annað en að tala. ,,Ó, vakna þú mín Þyrnirós" söng Guðni ómþýðum rómi en Geir rumskaði ekki. Vonandi eru menn búnir að átta sig á því að menn geta ekki talað sig út úr erfiðleikum sem þessum. Aðgerðir þurfa að fylgja orðum.

Sérstaklega hljóta menn að vera búnir að átta sig á mikilvægi Íbúðalánasjóðs fyrir landsmenn alla og vonandi að honum verði beitt í ríkari mæli til að tryggja öllum almenningi hagstæð lán til húsnæðiskaupa og losa fólk undan ofurvaldi bankanna. Þessar tillögur um hlutverk sjóðsins í að létta byrðum af bönkum og almenningi hljóta að verða skoðaðar gaumgæfilega.


mbl.is Vilja fella niður neysluskatta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarft innlegg hjá húsbóndanum

Það sést vel á þeim sem eru að blogga um þessa frétt að þeir vilja ekkert horfa á aðgerðir núverandi stjórnar en velta sér upp úr því sem þeir telja að hafi verið í tíð Framsóknar.

Í fyrsta lagi er því að svara að Framsóknarmenn sviku aldrei einhver gefin heit til handa öldruðum og öryrkjum. Við skiljum vel þann vanda sem við er að glíma að stýra þessum málaflokki og reyndum okkar besta til að bæta kjörin. Það eru hins vegar alltaf til þeir sem telja að gera megi betur og sjálfsagt var það í einhverjum tilfellum rétt.

Í öðru lagi þá getur ekkert verið að því að spyrja þá sem hæst göluðu í stjórnarandstöðunni á sínum tíma hvort þeir séu á sama máli í dag og þeir voru þá. Jóhanna hafði oft uppi stór orð í umræðu um málefni aldraðra og öryrkja. Hún er kannski aðeins að kynnast því á eigin skinni núna að það er ekki alltaf þægilegt að eiga við þennan hóp sem getur sannarlega verið erfiður viðureignar, og er ekki alltaf á þeim buxunum að láta ráðamenn njóta sannmælis þegar eitthvað er vel gert en liggja stöðugt í skotgröfunum.

Í þriðja lagi þá er ekki hægt að ætlast til þess að stjórnarandstöðuþingmaður þegi þunnu hljóði gagnvart ríkisstjórn sem er nú við völd, bara vegna þess að einu sinni var studdi hann aðra ríkisstjórn. Í þessu máli er Birkir svo langt frá því að vera ósamkvæmur sjálfum sér sem hugsast getur. Hann er aðeins að kalla eftir skýrum svörum um hvort að núverandi ríkisstjórn ætlar sér að standa við eigin loforð eða ekki! Það hlýtur að vera í verkahring stjórnarandstöðunnar.

Auk þess hefur Birkir ekki einu sinni gengið svo langt að saka heilaga Jóhönnu um að standa ekki við orð sín heldur vill aðeins að hún standi fyrir máli sínu. Þessi krampakenndu vandlætingarviðbrögð þegar þingmenn Framsóknarflokksins eru að reyna að vinna vinnuna sína finnst mér farin að vera leiðingjörn svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Birkir Jón: Vill ræða málefni aldraðra og öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband