Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Að vakna úr dvala

Ætli það sé ekki kominn tími til að vakna úr dvala. Ég get nú að minnsta kosti reynt að sýna smá lit og blogga, hvort sem það er um fjölskyldulífið eða pólitíkina.

Það er að minnsta kosti ekki tíðindalaust á þessum vígstöðvum. Við skulum sjá hvort ekki birtist eitthvað hérna von bráðar...


Langir dagar - Ræðan af borgarafundinum

Það eru langir dagar núna, alveg eins og þeir eiga að vera. Móttökur eru almennt góðar og það er mín tilfinning að margir séu að ákveða sig þessa dagana. Vonandi verða heimsóknir okkar framsóknarmanna til þess að sem flestir ákveði að kjósa okkur. Við reynum a.m.k. okkar allra besta til að sannfæra fólk.

Í gær var haldinn opinn borgarafundur allra flokka og var hann mjög vel sóttur. Ég hef ákveðið að setja ræðuna mína af fundinum hér inn. Þetta er vitaskuld ekki alveg orðrétt því maður getur nú ekki hangið alveg á blaðinu allan tímann.

---------------------------------

Fundarstjóri, ágætu kjósendur. Á laugardaginn nýtið þið ykkur það vald að velja ykkur nýja sveitarstjórn. Það er á ykkar ábyrgð að kynna ykkur stefnu framboðanna og fólkið sem þar er í fyrirsvari, og gera síðan upp við ykkur hverjum á að veita atkvæði ykkar. Við Framsóknarmenn bjóðum okkur fram til starfa fyrir ykkur og biðjum um ykkar atkvæði, ykkar stuðning til að knýja fram breytingar á stjórn sveitarfélagsins.

Kosningar snúast um tvennt. Þær snúast um frammistöðumat og þær snúast um framtíðarsýn. Verk núverandi meirihluta eru nú borin undir ykkar dóm. Við teljum að Sjálfstæðisflokkur og Héraðslistinn verðskuldi falleinkunn fyrir sín störf. Samandregnar skuldir sveitarfélagsins nema nú um 6,6 milljörðum króna. Fjárfestingar, m.a. í þessari byggingu sem við stöndum nú í, eru að sliga sveitarfélagið þannig að það er mat sérfræðinga að við þolum vart meiri skuldsetningu. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur kosið að kalla “Trausta fjármálastjórn”.

Því hefur að undanförnu mjög verið hampað af hálfu sveitarfélagsins að byggingarkostnaður Egilsstaðaskóla hafi verið undir kostnaðaráætlun. En byggingarkostnaðurinn skiptir mun minna máli heldur en fjármögnunarkostnaðurinn, það sem við komum til með að borga fyrir bygginguna þegar öll kurl eru komin til grafar. Framsóknarmenn vildu frá upphafi fara aðra leið þegar kom að viðbyggingu við grunnskólann hér. Framsóknarmenn lögðu til hóflegri viðbyggingu þar sem gert var ráð fyrir tónlistarskóla og áframhaldandi skólastarfi á Eiðum. Ef farið hefði verið að tillögum framsóknarmanna hefðu sparast hundruð milljóna króna við þessa framkvæmd. Þetta teljum við að kjósendur verði að taka til greina þegar þeir ákveða hvern á að kjósa á laugardag.  

Málsvörn núverandi meirihluta þegar kemur að skuldastöðu sveitarfélagsins hefur mikið til snúist um að skuldastaða okkar sé ekki svo slæm þegar borið er saman við önnur sveitarfélög á landinu. "Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað" söng Megas hér í eina tíð, og það er greinilega viðkvæði meirihlutans í aðdraganda þessara kosninga.

Við Framsóknarmenn teljum hins vegar að það dugi ekki að stinga hausnum í sandinn. Fjárhagsstaðan er slæm, því verður ekki á móti mælt og þessum vanda þarf að mæta af fullri einurð. Það er ljóst að framundan er erfiður niðurskurður. Það verður ekki gaman að leiða það starf, en við framsóknarmenn bjóðumst eigi að síður til að leiða það og standa reikningsskap okkar ákvarðana frammi fyrir hverjum sem er. Við lofum því að leita allra leiða til að spara áður en frekar verður höggvið í grunnþjónustuna þar sem þegar hefur verið hert að bæði starfsfólki og þjónustunotendum. Við munum leggja til endurskoðun á stjórnsýslu sveitarfélagsins með hagræðingu og sparnað að leiðarljósi. Þar eins og annars staðar verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Öðruvísi vinnum við okkur aldrei út úr núverandi vanda.

Næstu verkefni snúa síðan að því að auka tekjur sveitarfélagsins. það verður aðeins gert með átaki í atvinnumálum. Það þarf að styðja við bakið á frumkvöðlum í sveitarfélaginu til að virkja þann kraft sem í þeim býr. Sveitarfélagið þarf að stðja við atvinnustarfsemi sem er fyrir, m.a. með því að beina viðskiptum sveitarfélagsins í auknum mæli til fyrirtækja innan þess. Þannig hagnast báðir aðilar. En síðast en ekki síst þarf að skapa hér hagstætt umhverfi til að laða hingað ný atvinnufyrirtæki, bæði innlenda og erlenda fjárfestingu. Þarna getur sveitarfélagið beitt sér með því að veita nýjum fyrirtækjum ívilnanir, og lækka opinber gjöld á atvinnurekstur. Slíkar aðgerðir munu borga sig til lengri tíma litið.

Mig langar ágætu fundarmenn að taka smá tíma í að ræða þann tón sem kominn er í umræðu fyrir þessar kosningar. Mér var sagt áður en ég bauð mig fram að ég myndi þurfa að þola slæmt umtal og ég myndi eignast óvildarmenn. En aldrei bjóst ég við því að þurfa á opnum fundi að bera af mér ásakanir um fjárdrátt í störfum mínum fyrir Körfuknattleiksdeild Hattar og að ég hafi á tæpum tveimur árum sett UÍA á hausinn. Þessar lygasögur og sjálfsagt aðrar keimlíkar hafa verið á kreiki og ég neyðist því hér til að bera þær af mér. Sannleikurinn er sá að UÍA skilaði hagnaði á síðasta rekstrarári og mínu eina heila starfsári hjá sambandinu. Tími minn hjá Körfuknattleiksdeild Hattar markaðist m.a. af erfiðleikum sem tengdust efnahagshruninu og því lagði ég fram fé að láni persónulega til að tryggja að starfsemin gæti gengið en ekki þyrft að stoppa í miðri á. Það var staðfest á aðalfundi deildarinnar í gær að ég á þar inni fé og unnið er að því í góðri sátt að leysa það mál. Hvað varðar innræti þeirra sem spinna upp og dreifa sorpi af þessu tagi er aðeins hægt að hafa orð Bólu-Hjálmars. “Eru þeir flestir aumingjar, en illgjarnir þeir sem betur mega”.

Góðir fundarmenn. Framsóknarmenn bjóða sig fram með lýðræðið að leiðarljósi. Við völdum á framboðslista í opnu prófkjöri þar sem allir íbúar sveitarfélagsins gátu haft sitt að segja um skipan hans. Við boðum aukinn sýnileika kjörinna fulltrúa og aukin tækifæri borgaranna til að hafa sitt að segja um stjórn sveitarfélagsins. Listann leiða ungir og ferskir frambjóðendur sem eru fullir bjartsýni á framtíð og möguleika sveitarfélagsins þó tímabundið ári illa. Þið getið deilt þessari sýn með okkur með því að setja X vð B á laugardaginn.


Bæjarmálablaður V

Það hefur komið löng pása í þessum pistlum en ég skýli mér miskunnarlaust á bak við það að ég varð faðir í vikunni og helgin hefur snúist um Auðbjörgu litlu sem er að upplifa heiminn í fyrsta sinn. Það er merkilegt hvað hlutirnir fara allir að snúast um þessi blessuðu börn þegar þau koma í heiminn. Og kannski spyrja einhverjir hvort ég sé bara algjörlega hættur að hugsa um bæjarmálin. Svarið er nei, ég hugsa nú um þau sem aldrei fyrr.

Ég hóf afskipti af pólitík vegna þess að ég vil hafa áhrif á umhverfi mitt. Sveitarstjórnarmál gefa einstakt tækifæri til þess að breyta til betri vegar mörgu því sem snertir einstaklinga og fjölskyldur með beinum hætti dags daglega. Þegar ég flutti aftur austur var það vegna þess að mér þykir vænt um samfélagið á Fljótsdalshéraði og vildi tilheyra því. Þegar ég bauð mig fram sem oddvita á lista Framsóknarflokksins var það vegna þess að ég skynjaði að breytinga væri þörf til þess að ná því markmiði að Fljótsdalshérað yrði það fyrirmyndasveitarfélag sem það getur orðið og ég vil búa í.

Núna sé hins vegar ábyrgð mín tvöföld. Ég þarf ekki bara að leitast við að taka réttar ákvarðanir og móta samfélagið eins og ég tel rétt vegna þeirra sem nú búa þar og sjálfan mig þar á meðal. Ég þarf að taka réttar ákvarðanir með hagsmuni komandi kynslóða, barnanna okkar allra að leiðarljósi.

Ég hef ákveðna framtíðarsýn. Sýn á sveitarfélagið okkar sem besta stað á landinu til að ala upp börn. Sýn um menntakerfi sem er til fyrirmyndar, öflugt tómstundastarf og menningarlíf í blóma. Sýn um hreint og fallegt umhverfi þar sem börn og fullorðnir njóta þess að vera til við leik og störf. Innan Framsóknarflokksins er mikið af ungu og öflugu fólki sem deilir þessari sýn. Við biðjum ykkur um að vinna með okkur að henni.


Bæjarmálablaður IV

Það skiptir miklu máli að þeir sem bjóða sig fram til setu í bæjarstjórn horfi fram á veginn og líti björtum augum til framtíðar. Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika sveitarfélagsins búum við í góðu og eftirsóknarverðu samfélagi og við þurfum að ýta undir þessa jákvæðu þætti.

Menningarstarf í sveitarfélaginu stendur í miklum blóma og er það ekki síst í starfi frjálsra félagasamtaka sem þetta starf er unnið. Það er mikilvægt að sveitarfélagið rétti þessum samtökum hjálparhönd eftir megni og styðji við starf þeirra, t.a.m. með því að útvega aðstöðu.

Félagsheimilin sem sveitarfélagið á ætti einnig að reyna að nýta sem mest fyrir menningarstarf. Þar getur Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs komið að málum en sú stofnun hefur unnið mikið og gott starf að undanförnu. Á því á að byggja og leitast við að virkja stofnunina meira í menningarstarfi víða í sveitarfélaginu. Menning er allt það sem maðurinn gerir og á sannarlega ekki að vera bundin við eitt tiltekið hús eða yfir höfuð einöngruð innan við veggi og loft.

Þær hátíðir sem haldnar eru í sveitarfélaginu eru mikil auðlind. Þar má nefna Ormsteiti, Jasshátíðina, Sumarhátíð UÍA og fleiri og fleiri. Þetta eru dæmi um hátíðir sem samfélagið skapar og margir leggja á sig mikla sjálfboðavinnu til að af þeim megi verða. Sveitarfélagið verður að styðja við lofsverð framtök af þessu tagi enda ávinningurinn mikill í samfélagslegum verðamætum í það minnsta. Ef sveitarfélagið er meðvitað um mikilvægi þessara hátíða og starfsins sem unnið er þá má búast við enn meiri grósku í þessu starfi okkur öllum til hagsbóta.


Bæjarmálablaður III

Eins og áður hefur verið minnst á hér er fjárhagsstaða sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs ekki til að hrópa húrra fyrir. Það liggur fyrir að frekari niðurskurðar er þörf hjá sveitarfélaginu og það verður verkefni komandi sveitarstjórnar. Framsóknarflokkurinn gerir sér ríka grein fyrir þessu. Þegar kjósendur fara fram á tryggingar fyrir því að ákveðin þjónusta verði ekki skert er staðan sú að það er mjög erfitt að veita slíkar tryggingar. En kjósendur eiga samt rétt á svörum og við Framsóknarmenn viljum leitast við að tala skýrt. Þess vegna höfum við sett fram grundvallarsjónarmið sem við munum hafa að leiðarljósi við vinnu okkar á komandi kjörtímabili þegar kemur að ákvörðunum um niðurskurð.

Í fyrsta lagi verður að meta alla þjónustu sveitarfélagsins út frá þjónustuþegunum og gæðum þjónustunnar en ekki aðeins hvað hún kostar. Það er ekki hægt að líta t.d. á skólastofnun og horfa aðeins á tölur á blaði heldur verður að skoða hvað stofnunin færir samfélaginu fyrir þennan pening.

Í annan stað verða nauðsynlegar ákvarðanir um niðurskurð á þjónustu aðeins teknar í samráði og sem mestri sátt við bæði stjórnendur, starfsfólk og þjónustuþega. Það er ekki við því að búast að þessi sátt náist alltaf en yfirstjórn sveitarfélagsins ber a.m.k. skylda til að leita eftir henni.

Í þriðja lagi telur Framsóknarflokkurinn að ekki eigi umhugsunarlaust að beita flötum niðurskurði þannig að stjórnendum stofnana sé gert að skera niður um ákveðna prósentutölu óháð aðstæðum. Þegar slíkt er gert eru þeir sem ákvörðun taka að afsala sér ábyrgð á niðurskurðinum. Kjósendur eiga rétt á því að fulltrúar þeirra skoði mál ofan í kjölinn og taki og standi við erfiðar ákvarðanir en vísi þeim ekki með einu pennastriki á næsta mann.

Í fjórða lagi lofar Framsóknarflokkurinn því að forgangsraða þannig í niðurskurði að leitað sé allra leiða til sparnaðar á öðrum sviðum en í félagslegri þjónustu og skólakerfinu, áður en frekar verður skorið niður þar. Við getum ekki ábyrgst að þetta muni duga til en við getum lofað því að við þessa forgangsröðun verður staðið.


Bæjarmálablaður II

Svo sem fram kom í gær ætla ég í tilefni kosninganna að skrifa daglega hugleiðingu um bæjarmál fram til kosninga. Ég vil aftur taka fram að athugasemdakerfi við færslurnar er opið með tveimur fyrirvörum. Í fyrsta lagi ætlast ég til að menn séu sæmilega vandir að virðingu sinni óháð því hvort menn skrifa undir nafni eður ei. Í annan stað hef ég mótað mér þá stefnu að skrifa ekki sjálfur athugasemdir við eigin færslur. Ef athugasemdir kalla á viðbrögð er því ekki við því að búast að ég svari strax heldur þá í annarri bloggfærslu síðar.

-------------------------

Ferðaþjónusta er ein mikilvægasta atvinnugrein sveitarfélagsins og þar eru sömuleiðis miklir vaxtarmöguleikar. Vatnajökulsþjóðgarður mun t.a.m. vekja mikla athygli erlendra ferðamanna og það er mikill óplægður akur í hópi innlendra ferðamanna. Þess vegna vill framsóknarflokkurinn vinna með ferðaþjónustuaðilum að átaki þar sem Fljótsdalshérað er markaðssett sem ómissandi áfangastaður fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.

Slíkt átak þarf að vera víðtækt en mig langar að nefna nokkur atriði. Margir ferðamenn, bæði frá Evrópu og Ameríku sækjast eftir því að ferðast á eigin vegum og nota sér til stuðnings ferðahandbækur eins og Lonely planet bækurnar. Það er Héraðinu nauðsynlegt að þeir sem skrifa þessar bækur hafi jákvæða reynslu af svæðinu og það er hægt að leitast við að tryggja það með því að bjóða þessum höfundum hingað og sýna þeim allt það besta sem við höfum upp á að bjóða.

Sveitarfélög í kringum okkur hafa sum hver lagt nokkra vinnu í að markaðssetja sig sem áfangastað fyrir skemmtiferðaskip. Við getum byggt á þeirri vinnu í samstarfi við þessi sveitarfélög. Til að ná árangri í þessu þarf að sækja ferðakaupstefnur erlendis, kynna sveitarfélagið þar og sýna þolinmæði, því ekki er við því að búast að árangur fari að sjást af þeirri vinnu fyrr en að einhverjum árum liðnum.

Það er mikilvægt að huga að uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn. Það þarf að tryggja að tjaldsvæðið sé með þeim bestu á landinu og að miðbærinn þar sem ferðamenn sækja þjónustu sé aðlaðandi og bjóði upp á þá þjónustu sem ferðamenn sækjast eftir. Byggja verður á ímynd sveitarfélagsins sem grænt og náttúruvænt og ásýnd bæjarins má ekki vera í hróplegri mótsögn við þessa ímynd.

Það eru ekki síst tækifæri í markaðssetningu á sveitarfélaginu sem áfangastað fyrir náttúruunnendur enda möguleikar til útvistar nánast óendanlegir. Gildir þar einu hvort um er að ræða göngufólk, hestafólk, ferðamenn á vélknúnum farartækjum eða veiðifólk. Stórt skref í að auka þessa möguleika enn frekar væri ef ferðaþjónustuaðilum gæfist tækifæri til að kaupa á uppboðsmarkaði nokkur veiðileyfi á hreindýr og gætu þá selt þau sem hluta af pakkaferðum fyrir veiðimenn. Það gildir hið sama um hreindýraveiðileyfi og aðrar auðlindir. Þeim er best komið með því að heimamenn ráði sem mestu um nýtingu þeirra.

Margt fleira mætti nefna en allt eru þetta verkefni þar sem sveitarfélagið getur lagt sitt á vogarskálarnar í góðu samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Þetta samstarf, sem og samstarf ferðaþjónustuaðila innbyrðis er lykillinn að uppbyggingu á þessu sviði.


Senn líður nú að kosningum... - Bæjarmálablaður I

Eitthvað hefur heyrst að menn sakni kosningabaráttu á Fljótsdalshéraði. Að sumu leyti má það til sanns vegar færa að framboðin hafi verið nokkuð róleg í tíðinni fram til þessa. Hins vegar veit ég að mikið starf hefur verið unnið og við því má búast að baráttan héðan af verði snörp og hörð.

Ekki ætlum við Framsóknarmenn að skorast undan því og í tilefni kosninganna ætla ég mér að skrifa nær daglegar hugleiðingar um bæjarmál fram til kosninga. Ég vona að þið njótið vel. Ég vil ítreka að athugasemdakerfi við færslurnar er opið með tveimur fyrirvörum. Í fyrsta lagi ætlast ég til að menn séu sæmilega vandir að virðingu sinni óháð því hvort menn skrifa undir nafni eður ei. Í annan stað hef ég mótað mér þá stefnu að skrifa ekki sjálfur athugasemdir við eigin færslur. Ef athugasemdir kalla á viðbrögð er því ekki við því að búast að ég svari strax heldur þá í annarri bloggfærslu síðar.

En hér að neðan er fyrsti pistillinn.

-----------------------

Það má búast við því að fjármál skipi stóran sess í kosningabaráttunni í ár. Það er skiljanlegt. Skuldir sveitarfélagsins hafa aukist mjög mikið á undanförnum árum og nú er svo komið að áætlanir gera ráð fyrir því að 250 milljónir vanti upp á að sveitarfélagið geti að óbreyttu greitt af lánum sínum. Augljóslega þarf að spara.

Við Framóknarmenn leggjum upp með forgangsröðun í sparnaði. Það verður að leita allra leiða áður en til niðurskurðar kemur í grunnþjónustu. Eðlilegt er að spurt sé hvar á að skera niður. Hér vil ég tilgreina tvö dæmi.

Einhverra hluta vegna hefur sveitarfélagið ekki séð ástæðu til að bjóða út suma þá þjónustu sem keypt er að staðaldri, t.d. endurskoðunarþjónustu. Með reglubundnum útboðum ætti að vera hægt að spara fé sem fer í vinnu sem þessa. Akureyrarbær hefur nýlega boðið út endurskoðun sveitarfélagsins og hefur það að sögn skilað verulegum ávinningi. Það verður eitt af fyrstu verkum framsóknarmanna að afloknum kosningum að leggja til að fari verði í sambærilegt útboð hér.

Tölvukerfi sveitarfélagsins og stofnana þess eru eðlilega nokkuð umfangsmikil. Þar er notast að mestu við hugbúnað sem greiða þarf afnotagjöld af, eins og t.d. Microsoft Windows stýrikerfið. Í nánast öllum tilfellum er hægt að skipta þessum leyfisskilda hugbúnaði út fyrir ókeypis hugbúnað. Þarna er hugsanlega hægt að spara töluverðar fjárhæðir árlega og sömuleiðis í endurskoðun á fyrirkomulagi aðkeyptrar þjónustu við tölvukerfin.

Hlultir eins og þessir munu ekki einir og sér leysa allan fjárhagsvanda sveitarfélagsins en margt smátt gerir eitt stórt og við í framsókn viljum leita allra sparnaðarleiða sem mögulegar eru.


Dauðinn í Írak

Í dag var birt á vefsíðunni Wikileaks myndband sem var sannarlega skelfilegt að horfa á. Það sýnir hvernig bandarískir hermenn fella á annan tug Íraka í tveimur árásum. Myndbandið er á margan hátt óhugnanlegt og er mjög merkilegt innlegg í umræðu um stríðið í Írak, réttlætingu þess sem og stríðsrekstur almennt og gott að það er orðið opinbert.

En af því að umræðan um myndbandið mun verða mjög mikil, tilfinningarnar miklar og yfirlýsingarnar ansi stórar langar mig að leggja orð í belg um það sem mér sýnist að við sjáum og sjáum ekki á þessu myndbandi.

Á Pressunni er að finna þennan texta í frétt um myndbandið:

"Nýtt myndband á vef Wikileaks varpar ljósi á árás Bandaríkjahers á óbreytta borgara í úthverfi Baghdad í Írak. Meðal þeirra sem létust voru blaðamenn frá Reuters fréttastofunni og írösk börn. Árásin var gerð úr Apache þyrlu Bandaríkjahers og heyrast samskipti hermannanna sem gátu ekki beðið eftir að fá að skjóta. Fólkið var óvopnað."

Í þessu myndbandi falla ekki írösk börn. Tvö  börn verða fyrir árás og særast og er engin ástæða til að gera lítið úr því. En það breytir því ekki að frétt Pressunnar er ekki rétt hvað þetta varðar. Þetta er nógu slæmt, það þarf ekki að gera þennan viðburð neitt hörmulegri en hann er.

Í frétt Pressunnar er því slegið föstu að fólkið hafi verið óvopnað. Ég hef horft á myndbandið þrisvar. Ég get ekki betur séð en að a.m.k. tveir menn í hópnum sem uphaflega er ráðist á séu vopnaðir. Að auki virðist ljóst að bandarísku hermennirnir töldu einnig að ljósmyndarinn frá Reuters og aðstoðarmaður hans væru vopnaðir vegna ljósmyndabúnaðarins sem þeir báru. Kannski undarleg mistök en ekki alveg fjarstæðukennd þó.

Bandaríski herinn stóð þarna í átökum við vopnaða hópa heimamanna. Þarna var á ferð hópur manna og a.m.k. hluti mannanna voru vopnaðir. Ef við tökum með í reikninginn veruleika vopnaðra átaka og sleppum því um stundarsakir að velta fyrir okkur réttlætingu á stríðsátökum yfir höfuð, þá get ég ekki sagt hér og nú með fullri vissu að fyrri árásin hafi verið óréttlætanleg.

Hins vegar er ekki hægt að segja það sama um seinni árásina. Hún er skelfileg. Þar er greinilega verið að koma særðum manni til hjálpar og það er bara ekki réttlætanlegt að gera árás á ný undir þeim kringumstæðum. Enginn er vopnaður og börn í bílnum. Það er þessi árás sem á að hafa afleiðingar fyrir þá sem framkvæmdu. Þetta er óverjandi.

En það sem er jafnvel ennþá óhugnanlegra er viðhorf hermannanna sem um ræðir. Margítrekað lýsir skyttan von sinni að særður maður teygi sig í vopn til að geta réttlætt það að skjóta hann til bana. Í öllu finnst manni einhvern veginn eins og þeir ýki aðstæður til að geta fengið heimildir til aðgerða, eins og t.d. fjölda þeirra sem voru í hópnum.

Það er kaldhæðnislegt að hermennirnir virðast vera sér meðvitaðir um hvað þeir mega og hvað ekki. Þess vegna leggja þeir áherslu á "rétta" hluti þegar þeir óska eftir heimild til aðgerða. Eins og t.d. það að bíllinn sem kom sé ekki bara að ná í særða heldur líka að safna saman vopnum, þótt ekkert bendi sérstaklega til þess að vopn séu á staðnum þar sem bíllinn er eða nokkur að safna neinu slíku saman.

Það fylgir því að vera hermaður að sú staða getur komið upp að þú þarft að drepa. Það er veruleiki hermennsku. En það er hins vegar ekki skilyrði að njóta þess að drepa. Það er heldur ekki skilyrði að geta gert hvað sem er tl að mega fá að beita ítrustu hörku og njóta þess í botn. Þau viðhorf sem orð hermannanna í myndbandinu lýsa eru óhugnanleg. Ég held að Bandaríkjamenn þurfi ekki lengur að leita skýringa á því af hverju þeim er ekki tekið sem frelsandi hetjum.


Spunakarlar og kérlingar

Nú er stólað á að hægt sé að hræra upp í Vinstri hreyfingunni grænu framboði. Þau sjá þar sína von um að eyðileggja fyrstu skynsamlegu hugmyndir sem komið hafa frá þessari ríkisstjórn um almenna leiðréttingu skulda.

Hugmyndir VG um félagslegt réttlæti felst nefnilega í því að sá sem hafði miklar tekjur og tók bílalán sem hann réði við greiðslubyrðina af á þeim tíma og keypti sér dýran bíl, hann á ekki skilið hjálp. Sá sem var með lægri tekjur og tók bílalán sem hann réði við greiðslubyrðina af á þeim tíma og keypti sér þar af leiðandi ódýrari bíl, honum skal hjálpað.

VG vill deila út sinni tegund af félagslegu réttlæti, náð og miskunn. Skítt með það að báðar fjölskyldur eru í sömu greiðsluerfiðleikunum. Skítt með neyð og andlega áþján þeirra sem ekki ráða við afborganirnar. Ef þú keyptir dýran bíl þá átt þú ekkert gott skilið!

Að mínu viti þá er þetta eins og að koma að drukknandi manni og byrja á að segja: "Áður en ég kasta til þín bjarghringnum verð ég að fá að vita hvernig þú lentir í sjónum. Varstu fullur? Ertu búinn að haga þér með skynsamlegum hætti? Ertu viss um þú eigir ekki bara skilið að drukkna...?"


mbl.is Lán dýrra bíla afskrifuð mest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hagsmuna eru samtök lánþega að gæta?

Í fyrsta skiptið sem þessi ríkisstjórn sýnir einhverja viðleitni til að hjálpa þeim sem skulda orðið tugprósentum meira en nokkurn gat órað fyrir þá er að ekki bara svo að lánafyrirtækin bregðist við með ópum og óhljóðum heldur snarast sjálfskipaðir fulltrúar þessara skuldara fram og fordæma viðleitnina!

Í fyrsta lagi þá finnst mér óvarlegt að tjá sig nokkuð fyrr en frumvarpið liggur fyrir. Reynslan af umræðu undanfarna mánuði er sú að oft er nokkur munur á yfirlýsingum og hugmyndum og síðan því sem lagt er á borðið þegar allt kemur til alls. En hið jákvæða í þessu er að ríkisstjórnin virðist vera að sjá ljósið. Það er þörf á almennum aðgerðum til leiðréttingar skulda. Þessu hefur Framsóknarflokkurinn talað fyrir í rúmt ár og gott að einhver er farinn að leggja við hlustir.

En helsta hugsanavillan í málflutningi samtaka lánþega virðist vera sú að verði gengistryggðu lánin dæmd ólögleg að þá hverfi þau bara. Ef skilmálarnir verða dæmdir ólöglegir þá er jafn líklegt að upphaflega lánsfjárhæðin verður reiknuð upp með einhverjum hætti, en vextirnir verði ekki einir látnir duga. Ég ætla að taka fram að ég sé sterk rök með báðum hliðum í þessu máli og því tel ég algjörlega óvíst hvað verður. En sennilega mun aðeins allra besta mögulega niðurstaða geta tryggt lántakendum betri stöðu heldur en almenn færsla niður í 110% af markaðsvirði. Kostir slíkrar aðgerðar eru hins vegar að hún kæmi til framkvæmda strax, án óvissu um stöðu einstakra lántakenda eins og gæti orðið í kjölfar niðurstöðu í dómsmálinu fræga og myndi að auki vonandi blása lífi í markað með notaða bíla.

En það er tilgangslaust að ræða þetta mikið. Vinstri hreyfingin grænt framboð mun án efa drepa þessa viðleitni félagmálaráðherra í fæðingunni. Viðbrögð fyrirtækjanna í dag benda til þess að þau ætli sér að treysta á þetta. VG ætlar sér nefnilega að deila út félagslegu réttlæti eftir eigin forskrift. Skammta réttlætið eins og skít úr hnefa. Í hugarheimi þeirra þá eiga þeir sem tóku bílalán fyrir Land Cruiser nefnilega skilið að eiga í skuldavanda og vandi þeirra og fjölskyldna þeirra er bara þeim sjálfum að kenna. En fólki sem tók lán fyrir Yaris á að bjarga.

Þeir vilja dæma eins og Guð á himnum um hvort líf mannanna verðskuldi náð. Og þess vegna mun þessi flokkur aldrei styðja við almenna leiðréttingu. Þeir eru of uppfullir af fordæmingu til þess.


mbl.is Saka Árna Pál um ódýrt útspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.