Leita í fréttum mbl.is

Í ljósi nýfenginna vinsælda

Kæra Jóhanna (eða Hrannar, kemur kannski á sama stað niður...eða hvað? Við byrjum aftur...)

Kæri Jóhrannar

Þar sem ég get nú talið yður á meðal dyggra lesenda þessarar síðu ætla ég að nota tækifærið og koma til skila nokkrum punktum sem ég held að þér hefðuð gott af að heyra. Ég vona að þeir eigi eins greiða leið að hjarta yðar og mitt fyrra blogg.

1. Þjóðin þarf forystu, sýnileiki leiðtoga er nauðsynlegur og við þurfum öll að heyra einhvern stappa stálinu í okkur öðru hverju. Þetta getur enginn utan yðar gert þannig að mark sé að. Af hverju eruð þér ekki að gera þetta? Það að fara undan fjölmiðlum í flæmingi og segja helst ekki aukatekið orð nema tilneyddir er ekki til þess fallið að hvetja þjóðina til dáða í endurreisninni.

2. Við þurfum að kynna og verja okkar málstað erlendis. Af hverju hafið þér ekki beðið utanríkisráðherra (þennan skrýtna með kragaskeggið) um að beita utanríkisþjónustunni af fullum krafti í þetta verkefni. Utanríkisþjónustan hefur verið efld til muna á undanförnum árum til þess að geta brugðist við svona aðstæðum. Það vantar bara pólitísku forystuna. Ef staðan er orðin sú að óbreyttir þingmenn eru duglegri við utanlandsferðir og fundi til að verja þjóðina en ráðherrar og sendiherrar þá er bara eitthvað mikið að.

3. Við þurfum samheldni. Á tyllidögum fyrir kosningar var talað um að þessi fordæmalausa staða kallaði á víðtækari samstöðu stjórnmálamanna en áður hefði þekkst. Þjóðin brást við með því að kjósa til forystu tvo mestu þverhausa sem fyrirfundust í íslenskri pólitík. Þér hafið, kæri forsætisráðherra, ekki verið þekktir að mikilli lipurð í samskiptum við aðra stjórnmálamenn í gegnum tíðina. Samt tókuð þér að yður forystu á tímum þar sem stefnt var að áður óþekktri samstöðu. Afleiðingin er sú að við komumst ekki upp úr skotgröfum deilna og þér hafið varla náð að halda samstarfsflokknum um borð, hvað þá meira. Þér eruð komnir á endastöð.

4. Að mati undirritaðs er aðeins ein leið út úr þessari stöðu. Mynda þarf þjóðstjórn með aðkomu a.m.k. fjögurra stærstu flokkanna á þingi. Til þess að það megi verða þurfa allir flokkar að vera tilbúnir að gera gríðarlegar málamiðlanir og það er ekki pláss fyrir einstrengingshátt. Sennilega yrði það að falla í hlut hins þverhaussins, hæstvirts fjármálaráðherra, að leiða slíka stjórn, enda hefur hann ólíkt forsætisráðherra sýnt viðleitni til að sigla milli skers og báru og leiða þjóðina í höfn þó svo að stýra þurfi eftir öðrum leiðum en hann hefur áður talað fyrir.

Að þessu sögðu kveð ég yður og óska yður ánægjulegra daga á eftirlaunum.

Kveðja

Stefán Bogi (Þú manst ;o) framsóknarbloggarinn)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

psst. fjórflokkurinn er við völd, Einn fyrir alla, allir fyrir einn. Allt undir borðið 

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.10.2009 kl. 15:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband