Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Þetta var bara alvöru

Sit uppi á 6. hæð í Lágmúlanum. Því ofar sem maður er því meira magnast tilfinningin skylst mér og ég get vel trúað því, því mér fannst þetta heilmikið. Traust mitt á íslenskum verktökum var þó slíkt að ég hreyfði mig ekki úr sæti.

Vinnufélagi minn segist handviss að þetta hafi verið stærri skjálfti en Suðurlandsskjálftinn hér um árið. Það verður gaman að sjá hvort það er rétt.

Magnað að upplifa náttúruna svona, en jafnvel enn magnaðra að maður skuli búa svo vel að þurfa ekki að óttast hörmungar og hrun húsa eins og ýmsar aðrar þjóðir.

Við Íslendingar erum heppnir og skulum ekki gleyma því.


mbl.is Afar öflugur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um ræðumann ársins 2008?

Ég er svo illa innrættur að ég gat ekki annað en sent eftirfarandi tölvupóst til JCI og leitað skýringa á dularfullu mannshvarfi.

Ágætu JCI-liðar. 

Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með það framtak ykkar að dæma frammistöðu Alþingismanna í svokölluðum Eldhúsdagsumræðum á Alþingi. Ég er sjálfur mikill áhugamaður um ræðumennsku og þykir gaman að sjá ykkur reyna að blása þingmönnum okkar eldmóði í brjóst og reyna að veita þeim hvatningu til að flytja betri ræður. 

Ég var eðli málsins samkvæmt glaður að sjá að þið veittuð Höskuldi Þórhallssyni þingmanni Framsóknarflokks nafnbótina „Ræðumaður Alþingis 2008“, enda hann flokks- og vopnabróðir minn. Ég gladdist líka að sjá að val ykkar vakti athygli, hlekkur á tilkynningu á heimasíðu ykkar var settur á vefsíðuna www.eyjan.is, sem og á fleiri síður og við framsóknarmenn settum upp hlekki á síðunum www.hrifla.is og www.framsokn.is. Ég ætlaði einnig að nota tækifærið og setja slíkan hlekk á síðu Sambands ungra framsóknarmanna, www.suf.is, enda Höskuldur einn af okkur ungliðunum og því enn meiri ástæða fyrir okkur að gleðjast yfir framgöngu hans. Þá ber svo við að fréttinni um útnefningu hans virðist hafa verið eytt af heimasíðu JCI. 

Ég verð að spyrja hvað veldur? Þessi verðlaun hljóta hálft í hvoru að vera veitt til að vekja athygli á JCI og því starfi sem þar fer fram. Ég hefði haldið að þið tækjuð umferðinni sem fylgir hlekkjum á síðu ykkar fagnandi. Ég vona a.m.k. heitt og innilega að pólitískar skoðanir einhverra innan ykkar raða hafi ekki orðið til þess að ákveðið var að þurrka fréttina burt af síðu ykkar. Veiti því þó athygli að nýjasta fréttin, sú sem virðist hafa komið í stað tilkynningarinnar um „Ræðumann Alþingis 2008“, er um kynningarfund JCI GK. Hann er haldinn í Sjálfstæðissalnum í Kópavogi. 

Ef um einföld mistök eða bilun var að ræða, biðst ég afsökunar. Ég vil ekki saka neinn um óheiðarleika sem ekki á það skilið. En þið hljótið að skilja að þessa dagana er auðvelt að vera vænissjúkur framsóknarmaður. 

Með kveðju, Stefán Bogi Sveinsson, varaformaður SUF

Ætli þetta hafi svo ekki bara verið bilun eða eitthvað.


Það vantar veðbanka

Spámenn eins og ég þyrftu eiginlega að geta lagt fé undir í svona tilfellum.

Mín ágiskun er sú að Ellisif Tinna Víðisdóttir verði fyrir valinu.

Mín von er sú að Matthías G. Pálsson verði fyrir valinu. Ég veit það ekki en ég reikna með að hann sé eini umsækjandinn með doktorspróf. Þar að auki er þarna vandaður maður á ferð.


mbl.is 25 sóttu um embætti forstjóra Varnarmálastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já já ég er það

Ég er náttúrulega löngu trúlofaður.

Ég bað hennar Heiðdísar sumardaginn fyrsta. Hún sagði já. Það var gott.

Nú erum við byrjuð að skiptast ákveðið á skoðunum um brúðkaupið ;o)

Ég elska hana. 


Ekkifrétt og dulbúin auglýsing

Eru íslenskir fjölmiðlar algjörlega lausir við metnað?

Það er stolið fánum og skiltum í hverri viku úti um alla borg. ÞETTA ER EKKI FRÉTTNÆMT!

Svo kemst Vodafone upp með að spila á þessa frétt og nota hana sem ókeypis auglýsingu.

Hvurslags endemis rugl er þetta eiginlega?!


mbl.is Týndur talsmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var formannsræða

Guðni Ágústsson hélt góða ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins og fór vel yfir allt það sem mestu máli skiptir. Hann fór eðli málsins samkvæmt vel yfir efnahagsmálin og svartar horfur þar. Það er hins vegar ekki svo að ekki megi grípa til aðgerða, það er bara þannig að við erum ekki með ríkisstjórn sem er tilbúin til þess.

Mér þótti vænt um að heyra hann segja að við í Framsóknarflokknum höfum ekki mestar áhyggjur af bankakerfinu, ekki vegna þess að okkur sé sama, heldur vegna þess að við teljum það sterkt og geta þolað núverandi erfiðleika. En við höfum áhyggjur af fjölskyldunum í landinu og afkomu alls almennings. Það er hin rétta áhersla og verkefni alþingismanna á að vera að vinna að hagsmunum alls almennings, ekki þröngra sérhagsmunahópa.

Flestir biðu í ofvæni eftir því að Guðni myndi tjá sig um Evrópumálin. Hann tók drjúgan hluta ræðu sinnar í að ræða þau mál og eftirfarandi eru þeir þættir sem mér þótti standa upp úr.

1. Evrópumál eru á dagskrá. Ábyrgir stjórnmálamenn geta ekki haldið öðru fram í fullri alvöru. Það á að púa slíka menn niður af sviðinu.

2. Skoðanir innan Framsóknarflokksins eru ekkert annað en þverskurður af þjóðfélaginu og eðlilegt að menn séu um þetta mál ósammála. Við verðum að vera tilbúin í opna og hreinskipta umræðu um þessi mál og jafnframt verða menn að virða skoðanir þeirra sem eru ekki okkur sammála. Engin ein skoðun á þessu máli er rétthærri en önnur.

3. Guðni telur rétt að ráðast fyrst í nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar áður en sú spurning er borin fyrir þjóðina hvort ganga eigi í sambandið. Hann telur að þessa vinnu eigi að ráðast í og þannig geti henni verið lokið árið 2011.

4. Setja þarf lög um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákveða hvort gera á kröfur um aukinn meirihluta atkvæða, lágmarksfjölda þátttakenda eða annað.

Mér þótti ræðan hans Guðna góð og það var gott að sjá að hann talaði sem formaður sameinaðs flokks sem leitaðist við að sætta ólík sjónarmið og boða opna umræðu innan flokksins um erfið málefni. Hann nefndi að málefni varnarliðsins hefðu verið umdeild innan flokksins en aldrei leitt til varanlegs klofnings. Hið sama ætti að geta átt við um Evrópumál.

Ég er hins vegar ekki fyllilega sammála þeirri forgangsröðun að það eigi að ráðast í stjórnarskrárbreytingar og setningu almennrar löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur fyrst, áður en sú spurning er lögð fyrir þjóðina hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef verið í hópi þeirra framsóknarmanna sem vilja að þjóðin fái að segja sína skoðun á málinu sem fyrst. Það ætti að vera vandalaust að setja sérlög um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og þær reglur sem um slíka kosningu ættu að gilda. Ef þjóðin lýsti yfir vilja til umsóknar teldi ég kominn tíma á stjórnarskrárbreytingu. En ég skil röksemdir Guðna og virði þær þó ekki sé ég að öllu leyti sammála.

Ég þakka Guðna fyrir að opna fyrir heiðarlega umræðu um Evrópumálin og hlakka til að taka þátt í henni á vettvangi flokksins. Framsókn stingur ekki höfðinu í sandinn í þessu máli né öðrum.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.